Forsvarsmenn Hard Rock Café vilja opna veitingastaðinn í Iðu við Lækjargötu, samkvæmt heimildum Nútímans. DV greindi frá því í dag að Birgir Þór Bieltvedt, einn eigenda Domino’s á Íslandi, hafi náð samkomulagi um að opna Hard Rock í miðborg Reykjavíkur í sumar.
Heimildir Nútímans herma að Birgir og félagar vilji opna staðinn í Iðu og hafi unnið að því. Samkvæmt frétt DV er von á tilkynningu frá Hard Rock á næstu dögum.
Sjá einnig: Hard Rock opnar í miðbæ Reykjavíkur næsta sumar, von á tilkynningu á næstu dögum
Ísland er appelsínugult á sérstöku korti á vef Hard Rock sem sýnir hvar veitingastaði keðjunnar er að finna. Appelsínuguli liturinn táknar að keðjan sé með virkum hætti leita eftir einhverjum til þess að sjá um rekstur veitingahússins hér á landi.
Tómas Tómasson, sem er í dag þekktur sem Tommi á Búllunni, opnaði Hard Rock í Kringlunni árið 1987. Gaumur hf, eignarhaldsfélag Bónus-feðga, keypti svo staðinn árið 1999 og rak hann þar til honum var lokað í maí 2005.