Fyrr í dag sögðum við frá mynd sem Ingólfur Páll Matthíasson deildi á Facebook síðu sinni úr ruslagám fyrir utan verslun Krónunnar. Á myndinni má sjá ruslagám fullan af mat sem virðist í fínu lagi og Ingólfur gagnrýndi verslunareigendur fyrir matarsóun. Í svari við grein Nútímans segjast forsvarsmenn Krónunnar þakklátir fyrir allar ábendingar og vilja koma því á framfæri að það skipti Krónuna máli að lágmarka alla matarsóun.
„Þetta er móðgun við fátækt fólk, þetta er móðgun við afurðir bænda og þetta er mikil móðgun við umhverfið en eins og sjá má myndinni er plast utan um þetta allt,“ segir Ingólfur við DV.
Í svari Krónunnar segir að Krónan hafi markvisst verið að bæta verkferla til að stuðla að minni matarsóun og sem dæmi þá hafi selst yfir 50 tonn af matvælum á síðasta ári í gegnum verkefnið „minnkum matarsóun”.
„Við leggjum mikla áherslu á að flokka þær vörur sem komnar eru á síðasta söludag eða eru útlitsgallaðar en betur má ef duga skal og ljóst er að þarna var ekki farið eftir verkferlum og við hörmum það.”