Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein gaf sig fram á lögreglustöð í New York í morgun. Þetta er fyrsta sakamálið gegn Weinstein en fjöldi kvenna hefur sakað kvikmyndaframleiðandann um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi. BBC greinir frá þessu.
Sjá einnig: Weinstein biður Streep og Lawrence afsökunar á því að hafa notað nöfn þeirra til að fegra ímynd sína
Weinstein á yfir höfði sér ákæru vegna kynferðisbrots gegn leikkonunni Luciu Evans en hún var á meðal þeirra fyrstu sem greindu frá kynferðislegri misnotkun Weinstein.
Verjandi Weinstein neitaði að tjá sig um málið í morgun en Weinstein verður leiddur fyrir dóm síðar í dag þar sem honum verður kynnt ákæra í málinu. Talið er að samið hafi verið um tryggingu Weinstein fyrirfram og að hann muni leggja fram milljón dollara tryggingu í reiðufé.