Auglýsing

Háskóli Íslands vill kaupa nýja spilakassa sem auðvelda fólki að tapa aleigunni

Ríkiskaup hefur óskað eftir tilboði í þrjátíu nýja spilakassa fyrir hönd Háskóla Íslands og Nútíminn hefur útboðsgögnin undir höndum en þær upplýsingar sem þar koma fram eru mikið reiðarslag fyrir þá sem þjást af spilafíkn. Með nýju spilakössunum verður hægt að nota rafræn kort úr snjallsímum en þannig verður aðgengi að þeim auðveldað til muna.

„Reksturinn á spilakössunum er þannig að ég held að enginn starfsmaður Háskóla Íslands myndi vilja að neinn fjölskyldumeðlimur færi inn á þessa staði.“

Þeir rúmlega 500 spilakassar sem nú eru fyrir á 23 mismunandi stöðum taka aðeins seðla og því hafa spilafíklar þurft að annað hvort taka út peninga í hraðbanka eða óska eftir því að gjaldkeri á spilastaðnum taki út af debetkorti þeirra. Í einhverjum tilvikum hafa gjaldkerar á umræddum stöðum stöðvað úttektir fólks þegar ljóst þótti að viðkomandi væri að öllum líkindum að eyða aleigu sinni en með þessu móti verður lítið sem ekkert eftirlit. Eina sem þarf er debetkortið skráð í rafrænu veski í símanum þínum.

Nýjasta tækni í hljóði og mynd

Þá gerir Háskóli Íslands þær kröfur í útboðsgögnum að spilakassarnir séu með nýjustu tækni í hljóði og mynd og jafnvel ganga svo langt að óska eftir spilakössum sem hingað til hafa aðeins sést í spilavítum í stórborgum á við Las Vegas og Atlanta í Bandaríkjunum. Beygðir (e. curved) 49 tommu skjáir, 2.3 metrar á hæð með aukaskjá sem sýnir „Mystery jackpot“ eins og það er orðað í útboðsgögnum og að sjálfsögðu í háskerpu.

„Að vera tregur til þess að grípa til skaðaminnkandi aðgerða þýðir að þú veist alveg að fjármagnið kemur í gegnum skaðann.“

Spilakassarnir verða að vera tengdir við spilakerfi hins alþjóðlega fyrirtækis International Game Technology eða IGT en tekjur þess fyrirtækis á árinu 2022 voru 4.27 milljarðar Bandaríkjadala eða tæpir 585 milljarðar íslenskra króna.

Vilja kassa sem skila mesta hagnaðinum

Þá þurfa þeir sem skila inn tilboði að sýna fram á leikirnir sem þeir bjóða upp á séu þeir sem hafa staðið sig best á þeim markaði þar sem þeir eiga spilakassa nú þegar. Því skal haldið til haga að þegar óskað er eftir spilakössum sem „standa sig best á markaði“ að þá er ekki verið að meina þá spilakassa sem skila spilafíklinum flestum vinningum heldur þau tæki sem skara fram úr í að taka pening af þeim sem spila – tæki sem skara fram úr í því að halda spilafíklum við kassann og þau tæki sem skara fram úr í því að fá fólk til þess að borga meira og meira af fjármunum í þá. Sú krafa er einnig gerð að viðkomandi aðili hafi gefið út að minnsta kosti fjóra nýja leiki á hverju ári síðustu þrjú ár.

„Ég held að flestum starfsmönnum Háskóla Íslands finnist það vandræðalegt. Allir sem ég hef talað við finnst þetta óþægilegt og þetta er óþægilegt,“

Útboðinu lýkur eftir tvo daga eða í hádeginu á fimmtudaginn, 25. janúar.

Vandræðalegt fyrir HÍ

„Ég held að flestum starfsmönnum Háskóla Íslands finnist það vandræðalegt. Allir sem ég hef talað við finnst þetta óþægilegt og þetta er óþægilegt,“ sagði Henry Alexander Henryson, doktor í heimspeki og rannsóknarsérfræðingur hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands í hlaðvarpsþættinum Spilavandi í lok síðasta árs. Alma Hafsteins sér um þættina og vefsíðuna en hún er spilafíklaráðgjafi og fjölskyldumarkþjálfi. Henry talaði þar opinskátt um það hvernig væri að starfa í háskóla sem aflaði tekna með þessum hætti.

„Skaðinn er á hverju ári gríðarlegur.“

„Reksturinn á spilakössunum er þannig að ég held að enginn starfsmaður Háskóla Íslands myndi vilja að neinn fjölskyldumeðlimur færi inn á þessa staði. Ég hef aldrei hitt neinn sem myndi ekki líða illa yfir því að vita af barninu sínu eða maka á þessum stöðum. Þetta er vandræðalegt fyrir háskólann og ákveðinn blettur á honum. Í raun og veru gengur þetta ekki,“ segir Henry sem var hvatamaður að því í gegnum Siðfræðistofnun að skipaður yrði starfshópur hjá Háskóla Íslands sem myndi skoða allar hliðar á þessum rekstri.

Viðbrögð ollu miklum vonbrigðum

„Rektor tók vel í þessa hugmynd mína og þessi hópur starfaði og við komumst að ákveðinni niðurstöðu og hún var frekar einföld og eindregin. Þetta er flókið mál. Það er erfitt að missa tekjurnar og maður skilur það alveg en það eru til dæmis aðgerðir sem hægt er að fara í til að minnka skaðann. Þær valda tekjutapi líklega en það er hægt að fara í þær strax. Þú mátt ekki hugsa um þetta sem samkeppnismarkað – ef háskólinn fær ekki að gera hitt og þetta því þá græða einhverjir aðrir meira, björgunarsveitirnar eða einhver á netinu. Ég hef aldrei skilið þau rök. Það þarf einhver að taka af skarið,“ sagði Henry en viðbrögð við þessari skýrslu starfshópsins olli honum miklum vonbrigðum.

Það er engum blöðum um það að fletta að þessi fjáröflun Háskóla Íslands er að eyðileggja líf fjölmargra Íslendinga á ári hverju.

„Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum hvernig var brugðist við eftir að starfshópurinn skilaði sínu áliti. Það þurfti að bíða eftir opinberri nefnd sem var að ræða þetta í víðara samhengi en í sjálfu sér var alveg sama að hvaða niðurstöðu hún kæmist að. Það var alveg hægt að fara í ákveðnar aðgerðir fyrst,“ segir Henry sem sagði frá þessum aðgerðum sem starfshópurinn vildi fara í.

Fjármagnið kemur í gegnum skaðann

„Það voru til dæmis spilakort, minnka raunverulega möguleika fólks að hægt sé að tapa mjög stórum fjárhæðum. En þá sér maður kannski alltaf þegar það er verið að tala um þessa hluti – þessa neikvæðni eða lélegu viðbrögð við þessu – það er vegna þess að fólk áttar sig á því að stór hluti teknanna er að koma frá fólki sem er í vandræðum. Það er alveg vitað. Að vera tregur til þess að grípa til skaðaminnkandi aðgerða þýðir að þú veist alveg að fjármagnið kemur í gegnum skaðann. Fyrir mig sem einhvern sem er að fást við siðfræði, þá er þetta svo maður sletti „no brainer“ hvað manni ber að gera. Skaðinn er augljós og þetta er vel þekkt. Í starfshópnum var sálfræðingar sem hefur rannsakað þetta og fólk úr félagsráðgjöf og aðrir sem hafa ýmis sjónarhorn á þetta og skilja þetta mætavel. Þetta var frekar einfalt viðfangsefni þannig,“ segir Henry en hægt er að hlusta á viðtalið inni á vefsíðunni Spilavandi.is, á Spotify eða með því að smella á það hér neðst í þessari umfjöllun.

Það er engum blöðum um það að fletta að þessi fjáröflun Háskóla Íslands er að eyðileggja líf fjölmargra Íslendinga á ári hverju. Því er Henry sammála þegar hann segir…

„Skaðinn er á hverju ári gríðarlegur.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing