Hassið sem fannst um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq þegar lögregla leitaði þar í vikunni vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur er metið á 228 milljónir íslenskra króna.
Um tuttugu kíló er að ræða en miðað er við götuverð á fíkniefninu í Nuuk á Grænlandi. Hugsanlega fæst meira fyrir það í fámennari byggðalögum þar í landi.
Einn er í haldi vegna fíkniefnanna sem fundust um borð í skipinu. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald á fimmtudaginn vegna rannsóknar málsins og sætir því fram á mánudag.
Fréttatíminn greindi frá því að talið sé að hassið hafi verið ætlað til endursölu.
„Það vekur athygli að langt er síðan lagt hefur verið hald á hass á Íslandi, og það hefur dregið mikið úr hassnotkun á undanförnum árum því mikið hefur verið um grasræktun hér á landi. Það er munur á efninu sem er í grasi og þegar því hefur verið þjappað saman í hassplötu. Þetta eru hassplötur sem ég held að séu ekki framleiddar á Íslandi,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar á hvarfi Birnu í samtali við Fréttatímann.
Fíkniefnamálið verður aðskilið frá sakamálinu um hvarf Birnu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru málin aðskilin til að passa að öll orkan og athyglin beinist að leitinni að Birnu.
„Við leggjum alla áherslu á að klára það mál og upplýsa eftir bestu getu. Saman gætu rannsóknirnar truflað hvor aðra. Við fáum sérstakt teymi í fíkniefnarannsóknina,“ segir Grímur einnig í samtali við Fréttatímann.