Flugvallarstarfsmenn á flugvellinum í Tel Aviv montuðu sig af því á netinu að hafa sett meðlimi Hatara í verstu sætin þegar hópurinn flaug frá Tel Aviv til London. Einar Stefánsson, trommari Hatara, greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni. Hann deilir færslu frá manni að nafni Daher Dahli sem segir frá því að starfsmenn ísraelska flugfélagsins El Al hafi montað sig yfir því að hafa úthlutað Hatara verstu sætunum.
Einar er þó rólegur yfir þessu öllu saman en hann þakkar flugfélaginu fyrir meðferðina og bendir á að svölu krakkarnir sitji aftast. Felix Bergson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins er ekki eins ánægður með framgöngu flugvallastarfsmannanna en hann segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að þetta hafi farið fyrir brjóstið á honum.
Felix segir við Morgunblaðið að hópurinn ætli sér að skoða málið nánar á næstu dögum og gera athugasemdir.