Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru jafn mismunandi og þau voru mörg frá því klukkan 17:00 í gær og til klukkan 05:00 í nótt. Samkvæmt dagbókinni voru 35 mál færð inn í LÖKE-kerfið en þar á meðal var umferðarslys, akstur undir áhrifum áfengis, hávaðakvartanir og skemmdarvargar með spreybrúsa.
Hér eru þau verkefni sem lögreglan tiltók í dagbókinni – skipt niður á þau svæði höfuðborgarinnar þar sem þau komu upp.
Lögreglustöð 1 – Seltjarnarnes, Vesturbær, Miðbær og Austurbær
Ökumaður missir stjórn á bifreið sinni og rennur út af akbraut og endar á ljósastaur. Draga þurfti bifreiðina af vettvangi og ökumaður fluttur á Bráðamóttökuna til frekari skoðunar vegna eymsla.
Annars róleg vakt þar sem lögregla sinnir minniháttar útköllum vegna ölvunar og hávaða.
Tilkynnt um tvo aðila að spreyja á útvegg fasteignar í miðborginni.
Lögreglustöð 2 – Hafnarfjörður og Garðabær
Almennt eftirlit og minniháttar mál eins og hávaðakvartanir.
Ökumaður handtekinn á fjórða tímanum í nótt, grunaður um að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og vímuefna. Hann einnig sviptur ökuréttindum. Hefðbundið ferli, laus að blóðsýnatöku lokinni.
Lögreglustöð 3 – Kópavogur og Breiðholt
Lögregla kemur að umferðarslysi í hverfi 200 þar sem ökumaður hafði misst stjórn á ökutækinu sínu. Ekki slys á fólki en bifreiðin óökufær.
Lögreglustöð 4 – Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær
Almennt eftirlit lögreglu með umferð og borgurum. Eitthvað um hávaðaútköll.