Auglýsing

Heiða Kristín gagnrýnir forystu Bjartrar framtíðar: Treystir sér til að verða formaður

Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, treystir sér fullkomlega til þess að vera formaður flokksins ef vilji er fyrir því að hún bjóði sig fram. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í dag.

Heiða Kristín hætti sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar í desember á síðasta ári en fylgi flokksins hefur verið í frjálsu falli undanfarið. Hún hóf í kjölfarið störf hjá 365 en hætti þar á dögunum.

Viðtal við Heiðu í Kjarnanum á dögunum vakti mikla athygli. Þar sagði hún vanda Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð — hann væri ekki vandi kjósenda.

Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins [Guðmundar Steingrímssonar] og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð.

Spurð nánar út í þetta í Vikulokunum sagði Heiða að vandinn væri fyrst og fremst ákveðið tengingarleysi.

„Það er alltaf verið að bera á borð einhverjar tæknilegar lausnir við tilfinningalegum vandamálum. […]Mér finnst flokkurinn hafa formaliserast of mikið fyrir mína parta og mér finnst hann vera að elta eitthvað form sem er fyrirfram gefið í pólitik. Og mér finnst það ekki vera eitthvað sem er mikil eftirspurn eftir.“

Þá sagði hún að það væri í taugarnar á sér að Björt framtíð væri alltaf að skilgreina sig út frá öðrum.

„Mér finnst Björt framtíð eiga að tala um sig og hvað það er sem hún er að koma fram með og hvernig hún sér heiminn. En ekki alltaf einhvern veginn hvernig Björt framtíð er öðruvísi en Samfylkingin.“

Spurð hvort hún myndi taka þingsæti Bjartar Ólafsdóttur, sem er á leið í fæðingarorlof, ef Guðmundur Steingrímsson hætti sem formaður Bjartrar framtíðar sagði hún að hún myndi hugleiða að taka sætið á öðrum nótum ef Guðmundur mundi stíga til hliðar.

„Mér finnst hann hafa fengið ágætis tækifæri til að sanna sig og það er búið að leggja heilmikið inn í þennan flokk, bæði fylgi frá Besta flokknum og allskonar hluti.“

Loks sagðist hún treysti sér fullkomlega til þess að verða formaður Bjartrar framtíðar ef vilji væri fyrir því að myndi bjóða sig fram. Ársfundur flokksins verður í september.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing