Heitur pottur fauk af þrettándu hæð fjölbýlishúss við Hörðukór í Kópavogi og lenti á lóð leikskólans Kór við Baugakór í morgun. Þetta kemur fram á Vísi. Sem betur fer virðist enginn hafa verið í heita pottinum þegar hann fauk af stað.
Ragnheiður Anna Haraldsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á Kór, segir í samtali við Vísi að enn eigi eftir að sjá almennilega hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á leikskólanum eða á leiktækjum á lóðinni. Það sést betur þegar birtir í dag.
Í frétt Vísis kemur fram að heiti potturinn hafi mölbrotnað og dreifst á lóð leikskólans.