Matreiðsluþættirnir SOÐ hafa vakið talsverða athygli á Facebook en í þáttunum eldar Kristinn Guðmundsson fjölbreyttar kræsingar á sinn einstaka og óhefðbundna hátt. Nú hyggst Kristinn þakka fyrir góðar móttökur með því að halda sérstakt SOÐboð sem verður í beinni útsendingu á Facebook í sólarhring.
Kristinn segir í samtali við Nútímann að móttökurnar sem þátturinn hefur fengið hafi verið skemmtilegar. „Tæplega þrjú þúsund fylgjendur, Sjónvarp Símans búið að kaupa fyrstu seríuna og margir svo viljugir til að hjálpa mér,“ segir hann.
Á fimmtudaginn í næstu viku ætla ég að vera með sirka 24 tíma langan þátt í beinni útsendingu og bjóða upp á heileldað lamb í sous vide stíl — eldað í heita pottinum.
Kristinn segist dýrka að halda boð þar sem hann eldar ofan í margt fólk svo úr verður skemmtilegt partí. „Í þessu SOÐboði ákvað ég að bjóða fólki sem hefur hjálpað mér á einhvern hátt eða veitt mér innblástur eða spark í rassinn,“ segir hann léttur.
„En einnig er ég búinn að bjóða nokkrum fylgjendum af SOÐ-síðunni sem þakkir fyrir að deila myndböndunum mínum og koma þeim út í kosmósinn. Þau verða allavegana fjögur sem koma í boðið og ég ætla að draga einn í viðbót ef ég næ í 3.000 læk fyrir SOÐboðið.“
Hann segir að hugmyndin hafi komið frá nokkrum góðum vinum sínum sem eru alltaf til í svona vitleysu. „Og annar enskur vinur minn er með hægvarpið í Noregi á heilanum og þegar tveir svona hópar koma saman þá verður vonandi eitthvað gott til,“ segir Kristinn.
„Þannig varð hugmyndin til að hafa þetta allt saman í beinni á Facebook. En svo á endanum er þetta allt gert fyrir læk sem við erum svo sjúk í, einhvern til að klappa manni á bakið. En að öllu gríni slepptu þá langaði mig bara að þakka fyrir móttökurnar, þær hafa verið rosa skemtilegar.“
Hér má sjá einn af vinsælli þáttum Kristins sem er kominn með yfir 19 þúsund áhorf á Facebook