Fjölmiðlakonan Helga Arnardóttir, sem hætti hjá Birtíngi eftir tæpan mánuð í starfi, segir í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni að framkoma stjórnenda fyrirtækisins hafi valdið sé miklum vonbrigðum eftir að þeir tóku einhliða ákvörðun um að gjörbreyta hlutverki hennar hjá fyrirtækinu.
Helga sagði upp föstu starfi sínu hjá Ríkisútvarpinu og var ráðin sem yfirritstjóri Birtings í desember. Í gær greindu fjölmiðlar frá því að hún væri hætt. Hún segir í yfirlýsingu sinni að fögur fyrirheit hafi verið uppi og stór áform um að ráðast í töluverðar breytingar á Birtingi með tilkomu nýrra eigenda, meðal annars í stafrænni uppbyggingu. „Þegar til kastanna kom voru öll slík áform á sandi reist,“ segir hún.
Nokkrum dögum eftir að ég tók til starfa var útlit fyrir að um mjög alvarlegan forsendubrest yrði að ræða á minni ráðningu. Stjórnendur tilkynntu mér þá einhliða ákvörðun þeirra um að verkefnum mínum og hlutverki yrði gjörbreytt og ég mótmælti þeim áformum.
Hún segir að eftir þann tíma hafi sér verið ljóst að hún naut ekki stuðnings stjórnenda Birtings í þeim breytingum sem hún var ráðin til að leiða. „Þá naut ég ekki heldur þess ritstjórnarlega sjálfstæðis við útgáfu Mannlífs sem ég tel nauðsynlegt grundvallaratriði til að starfa við í frjálsri og óháðri fjölmiðlun,“ segir hún.
„Ég hef einungis starfað á tveimur fjölmiðlum á mínum 15 ára ferli og átt gott og heilbrigt samstarf við atvinnurekendur mína og samstarfsmenn á þeim tíma. Framkoma vinnuveitenda á þessum skamma tíma hjá Birtingi olli mér miklum vonbrigðum og eftir átján daga í starfi var alveg ljóst að forsendubrestur væri kominn í þetta samstarf og því yrði ekki haldið áfram.“