Auglýsing

Helgi Hrafn pakkar Brynjari Níelssyni saman í umræðu um iðjuleysi: „Það eru núll mál með þínu nafni á Alþingi“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, pakkar Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, saman á Facebook-síðu þess síðarnefnda í dag. Brynjar birti pistil eftir Björn Bjarnason fyrr í vikunni og sagði Björn hitta naglann á höfuðið „eins og svo oft áður“.

Í pistli sínum sem Brynjar tekur undir fjallar Björn um Pírata og segir þá málefnalausa. „Helgi Hrafn Gunnarsson er kominn á þing á ný fyrir Pírata. Hann sat á þingi 2013 til 2016. Þegar atkvæðaskrá hans er skoðuð kemur í ljós að í 1.112 atkvæðagreiðslum treysti hann sér ekki til að taka afstöðu til mála,“ skrifar Björn meðal annars.

Helgi birtir athugasemd á Facebook-síðu Brynjars og segir hann kasta grjóti úr glerhúsi. „Það vill nefnilega svo merkilega til, að á því tímabili sem þú tekur undir með Birni Bjarnasyni að Píratar hafi verið skoðana- og iðjulausir, að þá lagðirðu sjálfur ekki eitt einasta þingmál fram undir eigin nafni,“ segir Helgi.

„Ekki eitt frumvarp, ekki eina þingsályktunartillögu, ekki svo mikið sem skriflega fyrirspurn til ráðherra. Ekkert. Það eru núll mál með þínu nafni á Alþingi á kjörtímabilinu 2013-2016, Brynjar.“

Helgi bendir á að hann hafi sjálfur lagt fram 11 frumvörp og sjö þingsályktunartillögur, að Jón Þór Ólafsson hafi lagt fram átta frumvörp og fjórar þingsályktunartillögur og að Birgitta Jónsdóttir hafi lagt fram sjö frumvörp og níu þingsályktunartillögur. „Á sama tíma lagðirðu ekki nokkurn skapaðan hlut fram á Alþingi að eigin frumkvæði,“ segir Helgi.

„Nú finnst mér ekkert skemmtilegt að benda á þetta, enda vil ég miklu frekar stunda uppbyggilega pólitík til þess að koma því áfram sem við erum þó sammála um, Brynjar. En áður en þú byrjar að kasta grjóti næst skaltu íhuga aðeins hvar þú stendur.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing