Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir óþolandi og óbjóðandi hvernig forsætisráðherra kemur fram við þingið. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.
Helgi Hrafn segir að honum leiðist að tala illa um fólk. „En ég skal alveg segja þér hreinskilnislega að það hvernig hæstvirtur forsætisráðherra kemur fram við þingið er óþolandi og óbjóðandi,“ segir hann.
Ég er eiginlega algjörlega hættur að reyna að sykra það eitthvað. Hvernig þessi forsætisráðherra kemur fram við þingið er bara ekki í lagi, við eigum ekki að láta eins og það sé í lagi.
Hann nefnir þrjá ráðherra sérstaklega sem honum finnst hæfir í starfi.
„Ég er til dæmis alveg algjörlega blygðunarlaust aðdáandi Ólafar Nordal, sem mér finnst frábær ráðherra. Illuga Gunnarssyni er ég oft ósammála, en ég ber virðingu fyrir því hvernig hann nálgast suma hluti,“ segir hann.
„Bjarni Benediktsson er mjög góður, þótt ég sé mjög ósammála hans nálgun í mörgu eins og efnahagsmálum – eða stundum er ég sammála honum – en hann sýnir þinginu virðingu, hann er góður ráðherra í sjálfu sér, ef maður er sammála honum.“
Loks segir hann að það séu til ráðherrar sem eru bara ekkert með á nótunum.
„Þannig að þetta er ekkert spurning um flokka að mínu mati, þetta er bara spurning um að fá rétta fólkið í starfið.“