Tveir þingmenn og einn ráðherra eru skráðir fyrir íbúðum á leigu í gegnum Airbnb en þetta kom fram í frétt Stundarinnar í gær. Mikil umræða hefur sprottið upp um málið á samfélagsmiðlum en margir telja að útleiga Airbnb-íbúða þrýsti upp verðlagi og kyndi undir húsnæðisvanda í Reykjavík.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, eru allir skráðir ábyrgðarmenn íbúða samkvæmt gögnum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Ágúst og Helgi leigja út íbúðir í gegnum Airbnb. Þá er Ágústa Johnson, eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, einnig skráð fyrir íbúð í gegnum Airbnb.
Helgi Hrafn hefur svarað fyrir sig á Pírataspjallinu á Facebook en þar hefur myndast umræða um frétt Stundarinnar. Árný María Elínborg deildi fréttinni og sagði hegðun þingmanna siðlausa.
„Það þarf byltingu og þá er svona hegðun þingmanna bara ekki trúverðug. Fólk þarf allt aðeins að stoppa og sjá hvað Airbnb leiga er að gera samfélaginu okkar. Líf án öruggs heimilis er líf í ótta. Sérstaklega þegar fólk á börn. Fólk þarf að byrja að hugsa lengra en eigið veski og frekar um náungann og hvernig samfélagi fólk vill búa í. Þingmenn af öllum ættu að hafa þetta efst í forgangsröðinni,” segir Árný.
Margir taka undir orð Árnýjar og saka þingmennina um spillingu. Arnar Páll Ágústsson segir að fróðlegt verði að sjá hver viðbrögð Pírata séu en hingað til hafi spillingin einungis verið í öðrum flokkum. Helgi Hrafn segir að hann sé á leið erlendi í mánuð og hafi því ákveðið að nýta íbúðina, meðal annars til þess að fá fólk til þess að sjá um ketti fjölskyldunnar.
„Ég veit ekki alveg hvaða frekari viðbrögð ætti að veita. Þetta er hvorki spilling né fattleysi. Ég gerði þetta algerlega með opin augun, sé nákvæmlega ekkert að þessu og mun gera þetta aftur í framtíðinni þegar fjölskyldan fer öll brott í slíkan tíma að það þurfi kattapössun og sé hægt að nýta húsnæðið,“ segir Helgi Hrafn.