Þingmaðurinn Helgi Hrafn var búinn að hugsa „já“ lengi áður en hann kom því út úr sér eftir að kærastan hans notaði flashmob til að biðja hans.
Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir bað um hönd Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, á dögunum. Bónorðið hefur vakið mikla athygli síðan myndband af því var birt á Youtube.
Sjá einnig: Fimm ástæður fyrir því að Helgi Pírati er glaðasti hundur í heimi
„Svona er hún Inga mín,“ sagði Helgi Hrafn í þættinum Hisminu á hlaðvarpi Kjarnans á dögunum.
Inga bað hans í bænum Rieneck í Þýskalandi og fékk hjálp frá vinum og vandamönnum til að búa til svokallaða flashmob. Helgi sagðist vera mjög heppinn maður.
Hún fékk fullt af vinum og fólki til að búa til flashmob þar sem þau dönsuðu við Eurovision-lag og hún birtist á einum tímapunkti. Þá lyftu þátttakendur peysum og skyrtum upp og þá var búið að teipa á maga þeirra: „Viltu giftast mér?“
Helgi svaraði játandi en sagðist í Hisminu hafa lent í erfiðleikum við að koma því út úr sér.
„Ég hugsaði „já“ rosalega lengi áður en mér tókst að koma því út úr mér. En það gerðist,“ sagði hann.