Með því að stofna Facebook-síðuna Barnaskjól varð Gylfi Ægisson einhvers konar talsmaður fólks sem berst gegn því að börn í Hafnarfirði fá hinseginfræðslu.
Facebook-hópurinn Barnaskjól vill „stöðva innrætingu Samtakanna 78 á skólabörnum.“. Ástæðan er sú að bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku tillögu Samfylkingarinnar um að efla hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins. Meira um það hér.
Sjá einnig: Sjö hrikalegustu ummælin frá hlustendum Útvarps Sögu um hinseginfræðslu
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði á Alþingi í dag að kynfrelsi, hinseiginfræðsla og umburðarlyndi séu sterkari málstaðir en svo að þeir krefjist skoðanakúgunar til að bera sigur af hólmi. „Allra versti óvinur fordómanna er opin frjáls umræða.“
Hann sagði skoðun Gylfa á samkynhneigð þjóðþekkta enda ein óvinsælasta skoðunin á landinu í dag.
En þrátt fyrir fullkominn ósigur hans í umræðunni nú sem fyrr er strax komin fram sú krafa að tilkynna síðu hans sem hatursáróður og þar með fá henni lokað. Halda má því til haga að það er ákvörðun Facebook, ekki okkar. En það er þó fullt tilefni til að mótmæla slíkum kröfum. Menn hætta ekki að hafa skoðanir með því að þeim sé bannað að tjá þær.
Helgi sagði að þvert á móti sannfærir þöggun fólk um það eitt að samfélagið sé rökþrota.
„Að fólk sem berjist gegn fordómum þori ekki einu sinni að verja stuðning sinn við eitthvað jafnsjálfsagt og hinseiginfræðslu og kynfrelsi og umburðarlyndi.“
Hann sagði að lokum að vondar skoðanir yrðu að heyrast til að hægt væri að takast á við þær.
„Með því að þagga niður í óvinsælum skoðunum lokum við augunum fyrir vandanum og skiljum hann eftir jafnóúkljáðan og áður. Börn fordómafulls fólks mun halda áfram að heyra slíkum skoðunum varpað fram á heimilinu jafnvel ef tekið er fyrir þær á svæðum eins og Facebook. Munurinn er sá að á heimilinu heyrast ekki einnig viðbrögð samfélagsins.“