Nú eru allir flokkar að skoða möguleika sína til stjórnarmyndunar en þó svo að Samfylking sé stærsti flokkur kosninganna liggur ekki alveg ljóst fyrir hvaða ríkisstjórn Kristrún Frostadóttir gæti best sett saman úr þeirri stöðu sem upp er komin.
Framsóknarflokkurinn hlaut afhroð í þessum kosningum sem þýðir að myndun stjórnar með Viðreisn og Framsóknarflokki, sem þótti hvað líklegasta bandalagið ef tölur yrðu hagstæðar (ríkisstjórn góða fólksins) er út úr myndinni.
Vinstri græn og Píratar þurrkuðust út af þingi en VG náði ekki einu sinni nógu mörgum atkvæðum til að halda ríkisstyrk sínum sem stjórnmálaflokkur.
Nýjustu tölur frá RÚV sýna eftirfarandi mynd.
Í boði eru 63 þingsæti og þarf því 32 þingmenn til að mynda minnsta mögulega meirihluta.
Framsókn skiptir ekki lengur máli
Sex flokkar héldu þingsætum sínum og þar sem Samfylking hefur svo gott sem útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk og Miðflokkur ekki talinn vænlegur samstarfskostur fyrir þau þýðir það að Flokkur Fólksins verður að koma að stjórnarmyndun en með slíku bandalagi til vinstri er líklegast að Kristrún vilji mynda meirihluta.
Inga Sæland og hennar flokkur er líklega stærsti sigurvegari kosninganna með 10 þingmenn og er stærsti flokkurinn á Suðurlandi.
Flokkur fólksins hefur tekið við af Framsóknarflokknum og er nú í lykilstöðu í stjórnarviðræðum en Framsókn getur ekki komið að neinni stjórnarmyndun sem inniheldur einungis 3 flokka nema væri með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk.
Það lítur því út að ef Samfylking hefur útilokað samstarf við Miðflokk og Sjálfstæðisflokk, að Kristrún geti ekki myndað þriggja flokka stjórn án Ingu Sæland.
Bandalag C, S og F
C: 11
S: 15
F: 10
Viðreisn, Samfylking og Flokkur fólksins gætu myndað þriggja flokka stjórn með 36 þingmenn en líklegt þykir að slíkt samstarf velti á því hversu hörð Inga Sæland og hennar flokkur yrði í viðræðum.
Hún er í algjörri lykilstöðu í því samstarfi og jafnvel í stöðu til að heimta forsætisráðuneytið ef svo bæri undir og veltur þessi samsetning algerlega á þessu lykilatriði, geta þessir þrír flokkað komist að samkomulagi.
Bandalag D, C og F
D: 14
C: 11
F: 10
Ef Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Flokkur Fólksins tækju sig saman til að mynda stjórn myndi slíkt bandalag innihalda 35 þingmenn og því með þægilegan meirihluta.
Allt myndi þetta velta á hversu hörð Inga Sæland yrði í samningaviðræðum en hún væri í góðri stöðu til að fá sínu framgengt.
Bandalag D, F og M
D: 14
F: 10
M: 8
Sjálfstæðisflokkur, Flokkur Fólksins og Miðflokkurinn geta einnig myndað þriggja flokka stjórn og myndi sú stjórn innihalda minnsta mögulega meirihluta með 32 þingmenn.
Þessi niðurstaða þykir þó ekki líkleg nema Bjarni og Sigmundur séu staðráðnir í að komast í stjórn og sjái aðra flokka gera hosur sínar grænar fyrir Ingu Sæland.
Einnig myndi sú stjórn innihalda minnsta mögulega meirihluta sem sögulega hefur aldrei þótt ákjósanlegt.
Vænlegasta lausnin: Run DMC
D: 14
C: 11
M: 8
Á samfélagsmiðlum er myllumerkið ‚Run DMC’ vinsælt en það þýðir að Viðreisn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur myndu taka sig saman og mynda stjórn.
Sú stjórn myndi innihalda 33 þingmenn og væri því þriggja flokka meirihlut með tveimur mönnum en þessi staða þykir mörgum vera vænlegasti kosturinn í núverandi stöðu.
Líklegt þykir að þessir þrír flokkar gætu starfað saman án þess að gefa eftir of mikið af sínum stefnumálum og væri þar í rauninni komin fram fyrsta hreina hægri stjórn lýðveldissögunnar með flokkum sem allir segjast standa fyrir minni ríkisumsvif og lægri skattbyrði.
Það er því ljóst að jafnvel minnsta breyting á tölum geta breytt þessu landslagi töluvert en ef að Samfylking kýs að starfa ekki með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki er ljóst miðað við núverandi tölur að það þarf bandalag allra hinna flokkanna til að mynda stjórn án þeirra.