Rapparinn og athafnamaðurinn Herra Hnetusmjör gaf út á dögunum nýtt myndband við lagið Fóbó. Myndbandið hefur vakið mikla athygli, enda stórt í sníðum. Myndbandið er unnið að frumkvæði leikstjórans Eiðs Birgissonar sem að óskaði eftir því að gera myndband með Herra, þar sem að hann myndi ekkert rappa, heldur einungis leika í einskonar stuttmynd.
Myndbandið er tekið upp í Gufunesi, í og við rísandi kvikmyndaver Baltasar Kormáks, og sýnir frá Herra safna liði og ræna mafíósa.
Herra Hnetusmjör lýsir myndbandinu eins og lokasenu í hasarmynd, og sagði sjálfur: „Mér fékk að líða eins og Bruce Willis í einn dag.“
Sjá einnig: Herra Hnetusmjör rúntar um borgina með gull í kjaftinum í nýju myndbandi
Myndbandið kostaði að sögn Herra 1,3 milljónir í framleiðslu og um það sagði hann: „Þetta er eins og að fá sér steik. Hin myndböndin eru venjuleg steik, en þessi er úr gulli. Svona spari.“
Myndbandið er stjörnum prýtt, það má sjá glitta í rapparann Króla, athafnakonuna og Áttuliðann Sólborgu, tónlistarmanninn Huginn, og fyrrverandi KBE meðliminn Joe Frazier. Herra lýsir þessu sjálfur best: „Þetta er bara eins og Expendables fjögur.“
Það er nóg að gera hjá Herra, en næsta föstudag heldur hann útgáfutónleika fyrir plötuna Hetjan úr Hverfinu, sem að kom út 26. október síðastliðinn. Einungis 300 miðar eru í boði, og eru aðdáendur rapparans því hvattir til að tryggja sér miða á tónleikana, sem að fara fram á skemmtistaðnum Húrra föstudaginn 7. desember.
Á tónleikunum verða einnig til sölu, í takmörkuðu magni, sérstakir Hetjan úr Hverfinu X Reykjavík Roses bolir.
Myndbandið sem að um ræðir má sjá hér að neðan.