Alvarlegt neyðartilfelli kom upp um borð í flugvél Icelandair sem var að fljúga til Íslands frá Tenerife á miðvikudagskvöldið þegar farþegi fór í hjartastopp. Flugfreyjur Icelandair brugðust hárrétt við eftir að eiginkona mannsins hafði gert starfsfólkinu viðvart en svo heppilega vildi til að á meðal farþega var þaulreyndur hjúkrunarfræðingur.
Flugfreyjurnar ásamt hjúkrunarfræðingnum færðu farþegann úr sæti sínu og á gólf flugvélarinnar þar sem notast var við hjartastuðtæki til þess að bjarga lífi mannsins.
„Starfsfólk Icelandair er þjálfað í því að bregðast við í þeim fjölbreyttu aðstæðum sem komið geta upp um borð í flugvélum,“ sagði Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair þegar Nútíminn hafði samband í gær.
Flugvélin var ekki fullbókuð og því gafst viðbragðsaðilum nægilegt rými til þess að athafna sig um borð en hárrétt viðbrögð þeirra sem voru um borð urðu til þess að lífi mannsins var bjargað. Flugmenn vélarinnar höfðu samband við flugturninn sem svo hafði samband við viðbragðsaðila á jörðu niðri og beið sjúkrabíll eftir manninum þegar flugvélin lenti.
Ekki er vitað um líðan mannsins í dag en heimildarmaður Nútímans sem var um borð vildi koma þökkum til þeirra sem að lífsbjörginni komu.
„Það var alveg magnað að sjá hversu vel þjálfað starfsfólk var um borð. Það var ekkert panikk heldur gengu flugfreyjurnar beint til verks og spurðu strax hvort einhver læknismenntaður var um borð. Við farþegarnir héldum líka ró okkar og ég held að það hafi einmitt verið út af hárréttum viðbrögðum starfsfólksins,“ sagði heimildarmaður Nútímans sem var farþegi um borð.
Ekki er vitað um líðan mannsins í dag en hann var fluttur í skyndi á Landspítalann í Reykjavík um leið og flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli á miðvikudagskvöldið.