Tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir íhugar að senda formlega kvörtun til RÚV vegna mistaka í hljóðblöndun í Söngkeppni Sjónvarpsins á laugardag. Hildur flutti lagið Bammbaramm á laugardag en komst ekki áfram.
Flytjendur lagsins Heim til þín voru einnig ósáttir við hljóðblöndunina í söngkeppninni en dagskrástjóri Sjónvarpsins segir ekki standa til að bregðast sérstaklega við þessum kvörtunum, til dæmis með endurflutningi á lögunum.
Sjá einnig: Flytjendur Heim til þín ósáttir við hljóðblöndun RÚV í Söngvakeppninni á laugardaginn
Hildur segir í samtali við Nútímann að margt hafi farið úrskeiðis í hljóðblönduninni þegar hún flutti lagið Bammbaramm í keppninni og að það hafi haft mikil áhrif á hvernig lagið skilaði sér til sjónvarpsáhorfenda.
„Ég er mjög óánægð. Ég hef verið að hugsa um senda inn kvörtun til RÚV varðandi málið. Því það er sorglegt að þetta hafi skemmt svona mikið,“ segir Hildur í samtali við Nútímann. Hún segir að ekki hafi heyrst í söngnum í upphafi lagsins en að svo hafi lagið hljómað allt of lágt undir söng hennar.
Þetta gerir það að verkum að lagið verður skrítið og ekki eins þétt. Eðlilega grípur það engan.
Hún segist handviss um að um mistök hafi verið að ræða og að þau hafi skemmt fyrir sér og laginu. „Þetta er ekkert sama lagið í sjónvarpsútsendingunni og úr stúdíói. Ég kenni ekki endilega RÚV um að hafa ekki komist áfram en ég held það hefði verið áhugavert að sjá hvernig kvöldið hefði farið ef allt hefði verið eins og það á að vera.“
Hildur segist skilja vel að fólk heima átti sig ekki á því hvort að söngvarinn sé að gera mistök eða útsendingin. „Eðlilega vill fólk ekki kjósa lag sem ekkert heyrist í og grípur mann ekki.“
Tónlistarmaðurinn og upptökustjórinn Logi Pedro var Hildi til aðstoðar á laugardag en hún segir að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum hans. „Mér finnst það eiginlega lélegt. Það hefði kannski verið hægt að koma í veg fyrir mistökin,“ segir hún.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, segir í samtali við Nútímann að í útsendingum sem þessum sitji allir við sama borð. „Við höfum ekki og sjáum ekki ástæðu til að bregðast við þessu með róttækum hætti eins og endurflutningi á þessum lögum,“ segir hann.
„Ljóst er að um mistök var að ræða og vorum við ekki með nokkrum hætti að mismuna neinum. Okkur þykir þó leitt að mistökin hafi einungis bitnað á nokkrum keppendum.“
Skarphéðinn bendir á að ýmislegt geti gerst í beinni útsendingu og að þessi atvik séu dæmi um það. „Það sem við getum gert er að læra af þessu. Við hörmum ekki einungis svona athugasemdir og kvartanir frá keppendum og aðstandendum þeirra heldur tökum við þær grafalvarlega.“
„Við munum rýna mjög vel í hvað kann að hafa valdið, hvort og hvað megi laga og yfir höfuð leita allra leiða og úrræða til að lögin skili sér eins og best verður kosið.“