Maðurinn sem er grunaður um að hafa ráðið dóttur sinni bana í september síðastliðnum var einnig tekinn með töluvert magn af fíkniefnum. Þetta kemur fram í ákærunni sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag en Sigurður Fannar Þórsson mætti ekki fyrir dóminn og gaf því ekki upp hvort hann væri sekur eða saklaus af þeim lagabrotum sem lögð voru fram.
Vísir greinir frá þessu og segist hafa ákæru málsins undir höndum þar sem ákveðin atriði hafa verið afmáð. Þar segir að hann sé ákærður fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi. Atvikið sem málið varðar er sagt hafa átt sér stað á Hraunhólum við Krýsuvíkurveg við Vatnskarðsnámur þann 15. september.
Engin tengsl á milli albanskra glæpahópa og andláts 10 ára stúlku við Krísuvíkurveg
Í gámi og bílskúr
Það sem vekur athygli í ákærunni er að ekki er bara um að ræða manndrápið heldur einnig töluvert magn af ávana- og fíkniefnum sem fundust annars vegar í gámi við Kapelluhraun í Hafnarfirði og hinsvegar í bílskúr á ótilgreindum stað í Reykjavík.
Í gámnum fann lögreglan 114 grömm af kannabisefnum, tæplega 41 gramm af kókaíni, hálft gramm af hassi og eitthvað af kannabisblönduðu efni, sjö róandi töflur af gerðinni Alprazolam Krka, tvö stykki af flogaveikislyfinu Flunitrazepam Mylan, átta stykki af taugaverkjalyfinu Gabapentin, 24 stykki af MDMA, virka efninu í e-töflum, og svo eitt stykki Rivotril, sem er notað bæði sem mjög sterkt róandi lyf og einnig lyf við flogaveiki.
Það sem fannst í bílskúrnum voru 79 kannabisplöntur en þær fundust nokkru áður, þann 14. maí síðastliðinn, en hann er talinn hafa ræktað þær um nokkurt skeið áður en lögregla lagði hald á þær að því er fram kemur í frétt Vísis.