Íslenska hljómsveitin Hjaltalín hefur gefið út lagið Love From 99. Upptökum á nýrri plötu sveitarinnar er nú lokið en lagið Love From 99 er sagt það poppaðasta sem kemur frá sveitinni í mörg ár.
Útgáfa lagsins er hluti af upptakti væntanlegrar breiðskífu sveitarinnar sem hófst í byrjun árs þegar sveitin gaf út lagið Baronesse. Platan hefur nú verið í vinnslu í nær fimm ár en upptökum er nú formlega lokið og hún komin í hljóðblöndun.
Í byrjun árs tilkynnti Hjaltalín einnig um tónleika í Eldborg, 7. september, en tónleikarnir verða þeir stærstu á ferli sveitarinnar. Miðasala hefur gengið framar vonum og því hefur verið ákveðið að bæta við tónleikum föstudaginn 6. september. Hefst miðasala á þá tónleika kl. 12 á hádegi í dag.
Í fréttatilkynningu segir um lagið Love From 99: „Love from ’99 er ljúfsár óður til fortíðarinnar, þar sem minningar kalla á þrá eftir framtíð sem varð ekki. Nú eru liðin 20 ár og hlutirnir fóru ekki eins og þeir áttu að fara, en hverjum er ekki sama? með partýið að vopni getur maður haldið áfram og hlegið að þessum gömlu upplifunum sem samt ristu svo djúpt.“
Lagið varð upprunalega til sem demó í lifandi flutningi hljómsveitarinnar í stúdíó Kolgeit, snemma á árinu 2014. Eftir að grunnurinn var tekinn upp í Orgelsmiðjunni, þá leið þónokkur tími þar til söngur og texti í sinni fyrstu mynd var sunginn inn. Þvínæst maríneraði lagið með mörgum minni-og meiriháttar breytingum, nýum söngi og synthum, þar til upptökur kláruðust í maí sl í Stúdíó Sjampó. Síðan var lagið mixað í Ómstöðinni og masterað hjá Adda 800, en þessir 3 aðilar eru allir staðsettir í klasanum á Eyjarslóð 7. Þannig var lagið í um það bil 5 og hálft ár í vinnslu á 3 mismunandi stöðum.
Hlustaðu á lagið