Það er ekki á hverjum degi sem hjón stýra saman flugvélum. Þau Margrét Elín Arnardóttir og Tómas Beck, flugmaður og flugstjóri, flugu nýlega einni af Boeing 757 vélum Icelandair til Toronto í Kanada en þetta er í fjórða skipti sem þau stýra vél af þessari gerð saman.
Hjónin hafa oft flugið saman á minni flugvélum. Þau kynntust þegar Margrét Elín starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair samhliða flugnáminu og kenndi Tómas henni til að mynda verklega hluta blindflugsins og atvinnuflugs.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá hjónin á Keflavíkurflugvelli 28. ágúst en þá voru þau á leiðinni út í vél að undirbúa flugið til Toronto. „Það er alveg frábært að fá að vinna svona náið saman, við lítum bæði á það sem forréttindi,“ segir Margrét Elín í samtali við Nútímann. Hún segir þau vissulega ekki fljúga oft saman, enda margir flugmenn við störf hjá fyrirtækinu.
Farþegarnir sem voru á leið til Toronto vissu ekki af því að flugstjórnarklefinn væri skipaður hjónum en flugfreyjurnar voru með það á hreinu. „Þeim finnst þetta alltaf skemmtilegt,“ segir Margrét.
Það eru mörg pör og hjón sem starfa sem flugmenn hjá Icelandair og eigum við alveg pottþétt eftir að setja heimsmet þar, að minnsta kosti miðað við höfðatölu, eins og við Íslendingar erum svo dugleg við.
Blaðamanni Nútímans leikur forvitni á að vita hvort ekki sé mikilvægt að skilja deilur hversdagsleikans eftir á jörðu niðri í tilvikum sem þessum. „Heldur betur, en það er ótrúlega auðvelt,“ segir Margrét Elín.
„Flugmannsstarfið er afskaplega formfast með mjög ströngum verklagsreglum og hlutverkaskiptingin er mjög skýr. Það má eiginlega segja að maður detti í hálfgert hlutverk þegar maður gengur inn í flugstjórnarklefann.“