Fjölmiðlamaðurinn Hjörtur Hjartarson hefur verið sendur heim frá HM í Rússlandi þar sem hann var á vegum útvarpsstöðvarinnar X977. Þetta kemur fram á vef DV í dag.
Á vef DV kemur fram að kastast hafi í kekki milli hans og Eddu Sifjar Pálsdóttur, íþróttafréttamanns á RÚV. Edda Sif kærði Hjört fyrir líkamsárás árið 2012 en málið fór ekki fyrir dóm eftir að Hjörtur viðurkenndi fulla ábyrgð.
Í Fréttablaðinu segir að Edda Sif hafi lagt fram kvörtun á hendur Hjartar vegna áreitis í Rússlandi. Þar segir einnig að Hjörtur hafi mætt ölvaður á fréttamannafund KSÍ.
Víðir Reynisson, öryggisstjóri KSÍ, segir í samtali við DV að Hjörtur hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun en að vinnuveitendur hans hafi tekið þá ákvörðun að kalla hann heim.
„Það er það sem við vitum, að hann sýndi af sér einhverja hegðun sem að hans vinnuveitendur eru ekki sáttir með og þeir kölluðu hann heim. Þetta er ákvörðun hans yfirmanna að kalla hann heim,“ segir Víðir við DV.
Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri Vodafone, vildi lítið tjá sig um málið en staðfesti þó að Hjörtur væri á heimleið.
Í samtali við Fréttablaðið segir Hjörtur að gömul veikindi hafi komið upp en hann fór í meðferð vegna áfengisvanda árið 2014.
„Ég hrasaði illilega sem leiddi af sér óæskilega hegðun. Ég gleymdi mér í þessari stöðugu baráttu við áfengissjúkdóminn og fékk það harkalega í bakið. HM ferð mín var því stytt um þrjá daga enda engin leið til að takast á við veikindi mín hér í Rússlandi,“ segir Hjörtur við Fréttablaðið.