Bandaríkjamaðurinn Pete Kostelnick sló í gærkvöldi 36 ára gamalt met þegar hann lauk ferð sinni hlaupandi yfir Bandaríkin á 42 dögum, sex klukkutímum og þrjátíu mínútum. Hann er 36 ára.
Hann lagði af stað frá San Francisco og endaði för sína í New York. Lagði hann að baki 3.100 mílur, eða 4.989 kílómetra og fór að meðaltali 73 mílur á dag, eða um 117 kílómetra.
Kostelnick bætti fyrra metið um fjóra daga en það er frá árinu 1980.
Hann hljóp að jafnaði tvisvar á sólarhring. Hann vaknaði kl. 3 eða hálf fjögur að nóttu til og hljóp af stað um fjögurleytið. Lauk hann við um fjörutíu mílur fyrir hádegismat, eða rúmlega 64 kílómetra. Eftir hádegismat hljóp hann um þrjátíu mílur, eða rúmlega 48 kílómetra. Hann lagðist síðan til svefns um hálf sjöleytið að kvöldi til.
Kostelnick innbyrti um 13 þúsund kaloríur á hverjum degi. Fjögurra manna teymi fylgdi honum á bíl.
Nokkrir höfðu reynt að slá metið á þessu ári en mistekist. Kostelnick og teymi hans skráðu ferðina vandlega. Hægt var að sjá staðsetningu hans á internetinu á rauntíma og voru upplýsingarnar jafnframt sendar til Heimsmetabókar Guinness.
Hér er hægt að fylgjast með Pete Kostelnick á Strava.