Sænska fataverslunin H&M opnaði í Smáralind í hádeginu í dag. Nútíminn sagði frá því í morgun að fáir væru mættir í röð fyrir utan verslunina þegar rúmir tveir tímar voru í opnun en þá höfðu rúmlega 20 manns tekið sér stöðu í röðinni.
Skömmu síðar fór að fjölga verulega og þegar um klukkutími var í opnun hafði myndast löng röð. Áður en fólki var hleypt inn í verslunina stigu starfsmenn trylltan dans sem vakti gríðarlega kátínu nærstaddra.
Starfsfólk H&M stígur samhæfðan dans við opnun verslunarinnar. Ég hef aldrei tengt jafn lítið við neinn viðburð nokkurntímann. pic.twitter.com/HaafS26fuH
— Guðmundur (@GummiFel) August 26, 2017
Fljótlega eftir að verslunin opnaði var farið að hleypa fólki inn í hollum og fólk bíður enn fyrir utan verslunina. Verslunin veitir 20 prósent afslátt af öllum vörum í dag og þá fá fyrstu 1.000 gestirnir gjafakort.
Verslunin í Smáralind er sú fyrsta sem opnar hér á landi en til stendur að opna verslanir í Kringlunni og í miðborg Reykjavíkur.