Héraðssaksóknari hefur ákært tæplega þrítuga bræður fyrir brot á hegningar- og vopnalögum við Söluturninn í Iðufelli í Breiðholti í Reykjavík þann 5. ágúst síðastliðinn.
Eldri bróðirinn er meðal annars ákærður fyrir tilraun til manndráps en sá yngri fyrir hættu- og vopnalagabrot en bræðurnir skutu úr afsagaðri byssu umrætt föstudagskvöld.
Fjöldi vitna varð að atburðarásinni en eldri bróðirinn er ákærður fyrir að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu pars í hættu og sömuleiðis fjölda annarra óþekktra vegfarenda í stórfelldan háska með því að hleypa af skoti úr haglabyssunni á almannafæri.
Er hann sakaður um að hafa beint byssunni skáhalt upp á við og í áttina að fyrrnefndum aðilum eftir að hafa lent í átökum við ökumann bifreiðarinnar.
Þá er yngri bróðirinn ákærður fyrir tilraun til manndráps, hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa, skömmu eftir fyrrnefnt atvik, á bílastæði skammt frá beint haglabyssunni að bíl sem fyrrnefnt par sat í. Skaut hann af um tíu metra færi og hæfði hurð og hliðarrúðu bílasins.
Skemmdir urðu á hurðinni, hliðarrúða brotnaði auk þess sem konan fékk glerbrot yfir sig og hlaut minniháttar skurði. Á þennan hátt hafi yngri bróðirinn stofnað lífi og heilsu parsins í stórfelldan háska á ófyrirleitinn hátt, eins og segir í ákærunni sem Vísir greinir frá.
Krafist er að bræðurnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar auk þess sem haglabyssan verði gerð upptæk. Brot mannanna varða allt að fjögurra og fimm ára fangelsi.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn