Auglýsing

Hlupu fíkniefnasala uppi sem var með fullt af dópi og peningum

Lögreglan hafði í nógu að snúast frá klukkan 17:00 til 05:00 í nótt, en alls voru 50 mál bókuð í kerfinu á þessu tímabili. Þegar þetta er ritað gista þrír aðilar í fangaklefa. Lögregla sinnti jafnframt almennu eftirliti og ýmsum aðstoðarbeiðnum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið.

Lögreglustöð 1 – Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Seltjarnarnes

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi, og voru mál þeirra afgreidd á vettvangi.

Í miðborginni reyndi einn aðili að forðast afskipti lögreglu með því að hlaupa á brott. Lögreglumaður, sem reyndist fótfrár, elti manninn uppi. Við öryggisleit fundust fíkniefni og talsvert magn af reiðufé á manninum. Hann er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Jafnframt kom í ljós að hann, sem er erlendur ríkisborgari, var ekki með skilríki og gat ekki gert grein fyrir dvöl sinni hér á landi. Hann var handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar.

Lögreglustöð 2 – Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes

Engin fréttnæm mál komu upp á svæðinu.

Lögreglustöð 3 – Kópavogur og Breiðholt

Lögreglu barst tilkynning um hóp ungmenna með læti í strætisvagni. Þegar lögreglan kom á vettvang voru allir orðnir rólegir, og ungmennin héldu sína leið.

Önnur tilkynning barst um ungmenni að sprengja flugelda í verslunarmiðstöð í hverfi 109. Engar skemmdir urðu, og allir voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom.

Lögreglustöð 4 – Grafarvogur, Mosfellsbær og Árbær

Eldur kviknaði á svölum fjölbýlishúss í hverfi 112, og var hann fljótlega slökktur af slökkviliði. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá flugeldum sem skotið var inn á svalirnar.

Minniháttar skemmdir urðu á bifreiðum í hverfi 113 vegna sprenginga, og er málið í rannsókn. Þá var einnig tilkynnt um eignaspjöll á gróðurhúsi í hverfi 270, og það mál er einnig í rannsókn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing