Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði sömu setninguna alls sjö sinnum í umræðum um Wintris-málið í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Stundin greindi frá þessu í dag og vakti málið mikla athygli.
Ásmundur endurtók sig þangað til hann var stöðvaður af þáttastjórnanda sem sagði: „Þetta er í þriðja skiptið sem þú segir þetta. Þú verður að vera með fleiri línur, þetta gengur ekki.“
Nútíminn tók saman endurtekningar Ásmundar Einars en hægt er að hlusta á þær í spilaranum hér fyrir ofan. Hann fullyrti aftur og aftur að forsætisráðherra væri búinn að greiða skatta af eignum sínum á Íslandi og að það væri „stóra málið“.
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að erfitt sé að sannreyna fullyrðingu Ásmundar. Skattayfirvöld hafa engin úrræði til að sannreyna þær upplýsingar sem eigendur aflandsfélaga gefa íslenskum skattayfirvöldum og Kjarninn hefur greint frá því að forsætisráðherrahjónin svari ekki hvort sérstöku CFC framtali vegna aflandsfélagsins Wintris hafi verið skilað.