Sænska verslunarkeðjan H&M hefur selt fatnað fyrir rúmlega 2,5 milljarða króna síðan hún opnaði hér á landi í ágúst í fyrra til loka maímánaðar í ár. Fréttablaðið greinir frá.
H&M opnaði sína fyrstu verslun hérlendis fyrir tæplega ári í Smáralind og var hennar beðið með mikilli eftirvæntingu. Önnur verslunin opnaði mánuði síðar í Kringlunni.
Sjá einnig: Trylltur starfsmannadans H&M snýr aftur þegar verslunin opnar í Kringlunni
Sala í búðunum hér á landi hefur dregist saman frá opnun en hún nam 965 milljónum króna frá september til loka nóvember í fyrra. Næstu fjóra mánuði nam salan 715 milljónum króna en þegar fyrsti fjórðungur yfirstandandi rekstrarárs var búinn hafði salan dregist saman um 6,7 prósent og var um 670 milljónir.
Meðalvelta á verslun á dag hér á landi hefur verið um 4,5 milljónir króna en er nú samkvæmt nýjustu sölutölum, sem birtust í fjórðungsuppgjöri keðjunnar í síðustu viku, 3,6 milljónir króna á dag.
Engu að síður er enn stefnt að opnun þriðju verslunarinnar á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.