Íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon segist ætla að skoða lagalega stöðu sína vegna ummæla sem voru látin falla um hann á Twitter í kjölfar þess að hann birti spá fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hörður ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Kristján Óli Sigurðsson, sem hefur vakið athygli í hlaðvarpinu Dr. Football í umsjón Hjörvars Hafliðasonar, vakti fyrst athygli á spánni á Twitter. Hörður segir það ekki hafa verið gert með hans samþykki. Hann sé orðinn frekar þreyttur á öllu saman varðandi þessa einstaklinga sem fara mikinn í umfjöllun og þeir þurfi að fara að hugsa sinn gang þar sem að ýmislegt sem þeir láti út úr sér þoli ekki dagsljósið.
Eftir að Kristján Óli birti spánna urðu margir reiðir og létu óviðeigandi ummæli falla. Einn netverja sagði meðal annars að hann vonaði það að það væri einhver búinn að „skalla þetta gerpi“.
,,Ég verð að viðurkenna það, ég hef aldrei hitt þennan einstakling. Ég veit ekki hver þetta, það hefur komið upp hjá mér í gegnum tíðina. Sumt hefur maður láta yfir sig ganga, ég er að skoða hvað maður getur gert í stöðunni,“ sagði Hörður og bætti við að hann gæti ekki látið svona vera.
Hörður segist hafa fjarlægt færsluna vegna þess að hann hafi ekki nennt að standa í því veseni sem fylgdi, hann muni þó leita réttar síns.
Internetið gleymir ekki pic.twitter.com/mjcjGog9rW
— Magnús Haukur (@Maggihodd) August 4, 2019