Rapparinn Flóni sést fá sér sopa af léttvíni í þættinum Rabbabari á RÚV Núll. Þá sést þáttastjórnandinn Atli Már Steinarsson veipa í sama þætti. Þetta gagnrýnir Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum í Fréttablaðinu í dag. Horfðu á þáttinn hér fyrir neðan.
Árni segir í Fréttablaðinu að það sé mjög óæskilegt þegar fyrirmyndir sem þessar séu veipandi og drekkandi fyrir framan fólk. „Allt svona finnst manni bara sjoppulegt og ekki gott hjá fjölmiðli sem á að vera fremstur í því sem varðar ábyrgð og að virða réttindi barna og ungmenna.“
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa áður látið til sín taka en Nútíminn greindi frá því fyrir þremur árum þegar barni var telft fram í baráttu gegn nýju áfengisfrumvarpi.
Baldvin Þór Bergsson, dagskrárstjóri númiðla hjá Ríkisútvarpinu, segir í Fréttablaðinu að RÚV núll muni aldrei hvetja til neyslu en bætir við að það verði ekki hjá því komist að fjalla um þessi mál. „Í þessu tilfelli er um að ræða svipmyndir frá útgáfutónleikum á stað með vínveitingaleyfi. Í þeim senum sem teknar eru upp á staðnum má því sjá fólk neyta áfengis og illmögulegt að komast alfarið hjá því að sýna það,“ segir hann í Fréttablaðinu.
Baldvin segir að veipneysla Atla Más hafi verið mistök. „Við yfirferð misfórst að vekja athygli á þessu skoti en um leið og ábending barst var sett af stað vinna við að taka það út úr öllum okkar miðlum,“ segir hann í Fréttablaðinu.