Auglýsing

Hörundssárir súkkulaðiunnendur syrgja örlög Pipps: „Ekki segja mér að það sé farið“

Unnendur Pipps eru æfir yfir því að piparmyntusúkkulaðið sé horfið úr hillum verslana og komið í nýjar umbúðir með nýtt nafn. Á Facebook-síðu Nóa Síríus virðist bylting vera í aðsigi og sumir ganga svo langt að kalla eftir því að Ólafur Ragnar bjóði sig fram á ný vegna málsins.

Sjá einnig: Pipp hverfur úr hillunum og verður Síríus pralín súkkulaði

Eins og Nútíminn greindi frá á dögunum hefur Pipp súkkulaðið frá Nóa Síríus vikið fyrir Síríus pralín súkkulaði. Pipp með piparmyntu mun því framvegis heita Síríus pralín súkkulaði með myntu­fyll­ingu en um sama súkkulaði er að ræða.

Auðjón Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri sölu- og markaðssviðs Nóa Síríus útskýrði á mbl.is að pralín sé alþjóðlegt heiti yfir fyllt súkkulaði

Við erum að ein­falda vörumerkja­úr­val okk­ar og Pipp súkkulaðið fer núna und­ir merki Síríus, sem er aðal­vörumerkið okk­ar.

Fjörugar umræður fara fram um málið á Facebook-síðu Nóa Síríus. Einar Hermannsson segist hafa átt í tilfiningalegu sambandi við Pipp síðan október 1995. „Nói er að drepa það samband,“ segir hann niðurlútur.

Margrét Rósa Einarsdóttir segist vera brjáluð útaf Pippinu og Helga Birna Jónasdóttir spyr hvað gerðist með Pippið. „Ekki segja mér að það sé farið, eitt af uppáhaldinu mínu!“

Fullyrt er að Síríus Pralín súkkulaðið bragðist alveg eins og Pipp. „Svo þér alveg óhætt að kaupa eitt stykki ef löngunin í Pipp hellist yfir þig,“ segir í skilaboðum frá Nóa Síríus á Facebook.

Unnendur Pipps taka ekki undir það. Erna Ólafsdóttir segir til dæmis að Pipp og Síríus Pralín séu tvenn ólík súkkulaði. „Hef smakkað Pralínið og stenst það enganvegin Pipp-prófið, ekki einu sinni nálægt því.“

Og Margrét Rósa Einarsdóttir tekur til máls á ný og virðist kalla eftir byltingu. „Vér mótmælum allar, við viljum halda í Pippið,“ segir hún.

Sumir sælgætisunnendur ganga svo langt að spyrja um stöðugleika og krefjast þess að Ólafur Ragnar Grímsson bjóði sig fram á ný. Væntanlega til að sjá til þess að Nói kalli piparmyntusúkkulaði aftur Pipp.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing