Gestir á Adam Hotel við Skólavörðustíg 42 eru hvattir til þess að drekka flöskuvatn frekar en vatnið í krananum. Myndir sem sýna fram á það voru birtar í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook.
Veitur, dótturfélag Orkuveitunnar, segir í færslu á Facebook að engin ástæða sé til að vara við kranavatninu.
„Atvinnulífið treystir á að við útvegum því ferskt og gott vatn og við leggjum okkur fram um að gera það,“ segir í færslu Veita.
Við fengum sendar þessar myndir teknar á hóteli á Skólavörðuholtinu. Öll 100 sýnin sem tekin voru til rannsókna úr vatnsveitunni okkar í Reykjavík árið 2015 voru pottþétt. Þess vegna er engin ástæða til að vara við kranavatninu nema eitthvað sé bilað innanhúss.
Á Adam Hotel kosta tveir lítrar af vatni 400 krónur. Vatnið er í merktri flösku frá hótelinu en óvíst er hvaðan það er komið.