Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú glæp í Breiðholti sem hatursglæp en þrjár múslimskar konur urðu fyrir aðkasti þar í gær. Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur starfað með flóttafólki á Íslandi og í Grikklandi, lýsti atburðarrásinni á Facebook síðu sinni í dag. Hún segir að lögregla hafi ekki mætt á svæðið fyrr en eftir að hún sjálf hringdi þrátt fyrir að fólkið hafði áður óskað eftir aðstoð lögreglunnar.
Sjá einnig: Lögreglan rannsakar mögulegan hatursglæp í Breiðholti
Þegar Þórunn kom heim til sín var Kinan, eiginmaður hennar, í símanum og greinilegt að eitthvað mikið væri að.
„Á hinum enda línunnar var kær vinur okkar, ráðist hafði verið fólskulega á fjölskylduna hans í jafn hversdagslegum aðstæðum og innkaupaferð í Bónus. Fjölskyldan var á leið út úr versluninni þegar kona veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en svo bætti hún í og hrækti á þau og gerði tilraunir til að rífa í hijab kvennanna, sem er þekkt aðferð hatursglæpamanna til að niðurlægja múslima,“ skrifar Þórunn.
Hún segir að fjölskyldan hafi brugðist hárrétt við og hringt á lögregluna, þrátt fyrir að það sé ekki endilega auðvelt fyrir fjölskyldu sem kemur frá landi þar sem lögreglan „er ekki til fyrir fólkið, heldur fyrir yfirvöld og hikar ekki við að beita harðræði hvar og hvenær sem er.“
„Það að vinir okkar skyldu þora að hafa samband við lögreglu á ögurstundu hefði með öllu réttu átt að vera mikill sigur, en lögreglan sá ekki ástæðu til að koma,“ skrifar Þórunn. Í kjölfarið hringdu þau í Kinan og þá ákvað Þórunn að hafa samband við lögreglu. Þá var lögreglan tilbúin að mæta á svæðið. Þórunn er gáttuð á því að lögreglan hafi ekki séð ástæðu til þess að mæta fyrr á svæðið.
„Niðurstaðan varð þó á endanum sú að fólkið var beðið að koma og hitta lögregluna á Dalvegi og gefa skýrslu. Mér er enn algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna lögreglan sá ekki ástæðu til að skipta sér af á meðan árásin stóð yfir. Ég var vissulega ekki á staðnum sjálf og því ekki með fullkomna yfirsýn yfir tímalínuna, en taldi lögreglan í alvöru ekki mikilvægt að tryggja öryggi fjölskyldunnar við þessar aðstæður? Þótti ekki ástæða til að kanna málið og gera tilraun til að hafa uppi á árásarmanneskjunni? Voru engin vitni á vettvangi sem talið var mikilvægt að ná tali af? Hvað með sönnunargögn eins og upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar? Nú ætla ég ekki að þykjast hafa meira vit á vinnubrögðum lögreglunnar en hún sjálf, en hvernig hefði þetta mál endað ef fjölskyldan hefði ekki átt bakland sem gat gengið í málið? Hversu mörgum svona árásum heyrum við aldrei af?“ skrifar hún á Facebook.
Þá bætir hún því við atburðurinn hafi átt sér stað um hábjartan dag í landi sem kennir sig við öryggi og friðsæld, það sé það sem setji henni mestan óhug.
„Ofbeldið sem árásarmanneskjan ákvað að beita er af grafalvarlegum toga og á hennar eigin ábyrgð, en því miður ekki hægt að líta á það sem einangrað tilvik. Samhengið er miklu, miklu stærra. Hatursorðræðu, rasisma og íslamófóbíu hefur vaxið fiskur um hrygg í samfélaginu okkar undanfarin misseri. Sú ógnvænlega þróun á sér margar skýringar og fjölmargir sem bera þar mikla ábyrgð – stjórnmálafólk, fjölmiðlar og fólkið sem veitir þessum hugmyndum brautargengi og fjöldinn sem lætur þær óáreittar. Hvernig samfélag viljum við eiginlega vera?“
Að lokum hvetur hún fólk sem varð vitni að árásinni að hafa samband við lögregluna. Facebook færslu hennar má sjá í heild sinni hér að neðan.