Hrekkjalómur hefur sett upp síðu á Facebook þar sem tilkynnt er um framboð Loga Bergmanns í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum. Á síðunni er birtur langur pistill í nafni Loga og sagt að um einstaklingsframboð til borgarstjóra sé að ræða. Aðeins einn hængur er á: Logi er ekki á leiðinni í framboð.
Svanhildur Hólm, eiginkona Loga og aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, tekur málið upp á Facebook-síðu sinni og segist verða að hryggja borgarbúa og nærsveitamenn með því að hún stefnir ekki á borgarstjórafrúartitilinn.
„Þar sem það er allt í lukkunnar velstandi í hjónabandinu þýðir það þá líka að ástkær eiginmaður minn ber ekki ábyrgð á þessari ágætu síðu og er ekki á leið í framboð,“ segir hún.
Ég held reyndar að hann yrði frábær borgarstjóri, sennilega sá léttasti hingað til!
Svanhildur hafnar nokkrum fullyrðingum á síðunni og segir að Logi hafi enga sérstaka opinbera stefnu í málefnum borgarlínu, að Bjarni sé ekki að fara að borga neina kosningabaráttu og að varaþingmaður Samfylkingarinnar þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af meðferð höfuðfata í tengslum við þetta meinta framboð.
„Ég verð reyndar að hrósa grínaranum á bak við þetta fyrir góðan hrekk, sem hefur leitt til ýmissa skemmtilegra fyrirspurna í dag, meðal annars frá nokkrum fjölmiðlum,“ segir hún. „Og já – ef fólk langar í kaffi í hjarta höfuðborgarinnar um helgina (sjá framboðsyfirlýsingu) mæli ég með Kaffi Vest.“