Spurt var „hver stýrir útvarpsþættinum Maskínan á Bylgjunni“ í síðasta þætti Gettu betur. Enginn stýrir Maskínunni á Bylgjunni í dag en þátturinn var tímabundið á dagskrá sumarið 2014. Siggi Hlö stýrði þættinum en hefði miklu frekar viljað fá spurningu um þáttinn sem hann stýrir í dag og hefur stýrt í átta ár: Veistu hver ég var?
Sjáðu spurninguna hér fyrir ofan.
Siggi tekur málið upp á Facebook-síðu sinni og talar um hrikalega vonda rangfærslu. „MR-ingar höfðu ekki hugmynd um það enda ekki til neinn þáttur á Bylgjunni sem heitir Maskínan og MA-ingar skutu á Sigga Hlö og fengu rétt fyrir það,“ segir hann.
Skutu líklega á það vegna þess að hlustendur sem hringt hafa inn segja stundum við mig „Hlö Machine“.
Rangfærslan hafði engin áhrif á úrslit þáttarins en MR vann nokkuð afgerandi sigur.
Bryndís Björgvinsdóttir, annar spurningahöfunda Gettu betur, grípur kvörtun Sigga á lofti í athugasemdakerfinu og útskýrir sína hlið. „Ég fór inn á heimasíðu Bylgjunnar til að athuga hvaða þætti þú hefur verið með, og fann einmitt þetta,“ segir hún og bendir á þessa síðu.
„Ég var samt ekki alveg viss og hringdi í Bylgjuna og fékk þar samband við strák sem að sagði að þú værir með tvö þætti, og hélt að Maskínan væri annar þeirra. Ég er að búa til mörg hundruð spurningar og staðreynda-tékka þær allar, í þessu tilviki gerði ég það bæði með því að fara á heimasíðu og hringja í fyrirtækið.“
Siggi segist þá ekki vera brjálaður. „Þarf greinilega að vatnsgreiða mönnum fyrir þessa heimasíðu,“ segir hann.
„Takk samt fyrir að minnast á mig í spurningunum. Núna áttu inni spurningar eins og: „Hver er heitapottakóngurinn?“ og: „Í hvern hringja konur á laugardögum og öskra?“ og svo framvegis.“