Myndaruglið í Morgunblaðinu í vikunni, þar sem fjallað var um þrítugsafmæli Björns Ágústs Olsen Sigurðssonar en mynd birt af Hugin Ragnarssyni, var ekki grín heldur undarleg vinnubrögð starfsmanns Morgunblaðsins.
Sjá einnig: Morgunblaðið birtir ranga mynd með afmæliskveðju: „… heldur af þybbnum og fullum mér með í vörinni“
„Í dag á Björn Ágúst, nágranni minn á Neskaupstað, afmæli. Í Morgunblaðinu er ekki mynd af honum. Heldur þybbnum og fullum mér með í vörinni. Takk einhver,“ skrifaði Huginn á Twitter í fyrradag og vakti athygli myndaruglinu.
Í dag á Björn Ágúst nágranni minn á Nesk á afmæli.
Í MBL er ekki mynd af honum.
Heldur af þybbnum og fullum mér með í vörinni.
Takk einhver. pic.twitter.com/nGQxK47xNg— The Huginn Ragnarsson (@ofurhuginn) May 11, 2017
Eftir að málið kom upp lagðist Hugin í mikla rannsóknarvinnu. Skiljanlega vildi hann vita af hverju þessi mynd hefði verið birt af honum í Morgunblaðinu án þess að hann gæfi leyfi fyrir því. Þetta er líka síður en svo myndin sem hann hefði sjálfur valið til birtingar. Huginn taldi fyrst að um grín væri að ræða og hafði samband við vini og félaga til að kanna hver þeirra stæði fyrir því. Eftir að hafa rætt við Björn fór málið að skýrast.
Huginn segir í samtali við Nútímann að Björn hafi í vikunni fengið símtal frá starfsmanni Morgunblaðsins sem bað um leyfi fyrir því að fjalla um hann í afmælisdálknum. Björn samþykkti það og sagði starfsmanninum jafnframt að velja mynd af Facebook hjá honum til að hafa með umfjölluninni.
„Blaðamaðurinn valdi greinilega að hunsa allar prófílmyndirnar og fara í eitt „untitled“ albúm sem innihélt bara þessa einu mynd og við erum ekki einu sinni líkir,“ segir Huginn sem er verulega hugsi yfir málinu.
Ástæða þess að myndina er að finna á Facebook-síðu Björns er sú að hann deildi myndinni fyrir nokkrum árum þegar Huginn átti afmæli. Myndin er tekin árið 2011, eða fyrir sex árum þegar Huginn var í Versló.
„Myndinni deildi Björn á afmælinu mínu fyrir nokkrum árum og ég, skiljanlega, untaggaði mig einhverntíma,“ segir Huginn að lokum.