Grínistinn og teiknarinn Hugleikur Dagsson segir frá líkamsárás sem hann varð fyrir á dögunum í pistli í Fréttablaðinu í dag. Hann segist hafa verið laminn í fyrsta skipti á ævinni og að ofbeldi sé tungumál fólks með takmarkaðan orðaforða.
„Ég ætla ekki að segja ykkur hver byrjaði og hvort ég átti það skilið eða ekki. Ókei, hann byrjaði og ég átti það ekki skilið,“ segir Hugleikur í pistlinum
Í stað þess að flýja eða slást rúllaði ég mér í svona kúlu eins og beltisdýr. Það eru mín viðbrögð við lemji.
Hugleikur segir í pistlinum að viðbrögðin hafi ekki verið skemmtileg fyrir árásarmanninn. „Í stað þess að berjast við verðugan andstæðing þurfti maðurinn að sparka endurtekið í ósamvinnuþýða mann-kúlu sem emjaði „ái“ og „hættessu“,“ segir hann.
„En þrátt fyrir tæknilegan ósigur gekk ég frá þessari reynslu frekar sáttur. Ánægður með sjálfan mig. Stoltur af marblettunum á hægri sköflungi og vinstri öxl. Mér fannst ég hafa unnið. Á því einu að hafa ekki tekið þátt.“
Hugleikur segir að það sé asnalegt að lemja. „Ég átti reyndar aldrei séns í gaurinn því ég kann ekki að lemja. Það er bara svo asnalegt að lemja. Burtséð frá allri „ofbeldi er rangt“ predikuninni, þá er ofbeldi bara svo fokking lúðalegt,“ segir hann.
„Alltaf þegar ég sé tvo gaura slást á djamminu skammast ég mín fyrir að vera sömu tegundar. Báðir aðilar breytast í vanþroskaða apa. Það er ekki eins og í bíómyndunum þar sem ofbeldi er kúl og kóreógrafað með sándeffektum. Í veruleikanum er það í besta falli hlægilegt og sorglegt á sama tíma. Ofbeldi er tungumál fólks með takmarkaðan orðaforða. Sá tapar sem á fyrsta höggið.“
Smelltu hér til að lesa pistil Hugleiks.