„Við erum ekki á Twitter. Ég veit ekkert hver þetta er,“ segir Fanney Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland, í samtali við Nútímann.
Tíst sem virðist vera frá Twitter-aðgangnum @ungfruisland var birt í morgun:
Ein af Prinsessunum okkar féll á lyfjaprófi. Álag og væntingar geta fara með okkur á myrka staði. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
— Ungfrú Ísland (@ungfruisland) August 10, 2016
Tístið hefur vakið talsverða athygli en Fanney ítrekar að keppnin sé ekki á Twitter og að engin lyfjapróf séu í Ungfrú Ísland.
„Það eru engin lyfjapróf eða neitt svoleiðis hjá okkur,“ segir hún.
Svo virðist sem fólk hafi látið glepjast þar sem víða á Twitter má finna umræður þar sem fólk furðar sig á innihaldi tístsins. Fanney segist ekki vita hver sé á bakvið aðganginn.
„Ég fékk þetta sjálf bara sent í morgun. Þetta er einhver fyndinn,“ segir hún. Fanney vinnur nú að því að reyna að tilkynna aðganginn til stjórnenda Twitter svo hægt sé að taka hann niður.
Ungfrú Ísland verður haldin 27. ágúst næstkomandi í Hörpu.