Auglýsing

Vilja ekki svara hvort einhver hafi verið rekinn í tengslum við Regnbogavottun Reykjavíkurborgar

Átakið Regnbogavottun Reykjavíkur hófst í nóvember 2019 og var þá samþykkt af mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði og er Regnbogavottunin sögð liður í mannréttindastefnu borgarinnar.

Regnbogavottuninni er lýst á heimsíðu Reykjavíkurborgar á þennan hátt:
„Allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar geta fengið Regnbogavottun. Markmiðið með Regnbogavottun Reykjavíkurborgar er að gera starfsemi Reykjavíkurborgar hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.”

Starfsstaðir sem sækja um Regnbogavottunina þurfa að fara í gegnum ákveðið ferli en til að fá vottun þarf vinnustaðurinn að hafa samband við svokallaðan sérfræðing borgarinnar í málefnum hinsegin fólks og óska eftir að hefja Regnbogavottunarferlið.

Þá er sérstaklega tekið fram að allt starfsfólk vinnustaðarins þurfi að taka þátt ef að vinnustaðurinn á að fá vottunina og vakti sú klausa sérstaka athygli blaðamanns sem sendi tölvupóst á Reykjavíkurborg til þess að óska eftir frekari upplýsingum um ferlið. Það tók tæplega tvo mánuði að fá skýr svör.

Hvað gerist ef ekki allir starfsmenn taka þátt?

Spurt var hvað myndi gerast í ferlinu ef  einhver starfsmaður óskaði eftir því að taka ekki þátt í slíkri vottun, hvort sem það væri vegna persónulegra eða trúarlegra ástæðna. Þá var líka spurt hvort allt ferlið væri ónýtt ef einn, tveir eða fleiri á hverri starfsstöð neitaði að taka þá. Nútíminn vildi einnig fá skýr svör varðandi þær afleiðingar sem biðu þess starfsmanns eða starfsmanna – eins og til dæmis hvort viðkomandi væri gert að finna sér annan vinnustað. Blaðamaður spurði einnig hvort slíkt hefði einhvern tímann komið upp.

Svarið kom frá Önnu Kristinsdóttur, mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, en í því stóð að það hefði komið upp að starfsfólk hjá borginni hafi neitað að sitja fræðslufundi vegna vottunarinnar, bæði vegna trúarlegra og persónulegra ástæðna en slíkt væri þó ekki algengt.

„Í þeim tilfellum þar sem starfsfólk er á móti því að taka þátt í Regnbogavottun hvort sem það er vegna trúarlegra eða persónulegra ástæðna þá þarf samtal að eiga sér stað“

Einnig kom fram í svarinu að andstaða einstaka starfsfólks hafi ekki orðið til þess að vinnustaður hafi hætt við vottun og að ferlið væri ekki ónýtt  þó einstaka aðilar væru ekki fullir þátttakendur í vottuninni. Tekið var þó skýrt fram að andstaða við vottun sé ekki tekið af léttúð af yfirmönnum hjá borginni.

„Í þeim tilfellum þar sem starfsfólk er á móti því að taka þátt í Regnbogavottun hvort sem það er vegna trúarlegra eða persónulegra ástæðna þá þarf samtal að eiga sér stað milli stjórnenda og þess sem er á móti. Það samtal getur falið ýmislegt í sér, til að mynda að greina frá því að hjá borginni sé í gildi Mannréttindastefna sem nær til allra vinnustaða borgarinnar og öllu starfsfólki ber að fylgja í sínum störfum hjá borginni.”

Ekki fengust frekari skýringar á þessum ummælum en erfitt er að túlka þau öðruvísi en að starfsmanni beri að beygja sig undir þau skilyrði sem sett eru fyrir Regnbogavottuninni en þrátt fyrir sérstaka spurningu þess efnis fékkst ekki svar við því hvort einhverjum hafi verið sagt upp vegna þessa. Það þykir Nútímanum einkennilegt.

Langt frá því að vera eina skilyrðið

Þetta var þó ekki eina skilyrðið til að vinnustaður geti hlotið Regnbogavottun heldur felur ferlið einnig í sér eftirfarandi:

– Spurningalista um starfsstaðinn
– 4.5 klst. fræðslu fyrir allt starfsfólk um hinsegin málefni. Fræðslunni má skipta upp í nokkur skipti en einnig er í boði að sitja alla fræðsluna á einum degi.
– Úttekt á starfsumhverfinu, útgefnu efni o.fl. eftir atvikum
– Að starfsfólk útbúi aðgerðaáætlun fyrir starfsstaðinn í hinsegin málum, áætlunina skal uppfæra á árs fresti og skila inn.
– Fána, lógó og plakat (þegar starfsstaður öðlast regnbogavottun) og endurgjöf.

Þá segir einnig að mikilvægt sé að starfshópurinn sé upplýstur um að hann sé að fara í vottunarferlið og tilgang þess. Þá er honum gert grein fyrir því að til að halda vottuninni þurfi vinnustaður lágmarksfræðslu upp á 1.5 klukkustundir innan þriggja ára frá útgáfu vottunarinnar.

Fjölmargir vinnustaðir hafa hlotið Regnbogavottunina en lista yfir þá má finna á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Sá listi er ekki stuttur:

– 9 leikskóla
– 18 grunnskóla
– 33 frístundaheimili
– 25 félagsmiðstöðvar
– 3 sérstök menningar- og íþróttafélög
– 7 sundlaugar
– 9 söfn
– 6 velferðarþjónustur
– 6 stjórnsýsluskrifstofur

Kostnaður?

Blaðamaður spurði Reykjavíkurborg út í kostnað við að Regnbogavotta alla þessa vinnustaði, hver heildarkostnaður borgarinnar væri fram að þessu, hvort kostnaður færi eftir stærð vinnustaðar, hvort Reykjavíkurborg greiddi fyrir alla þessa vinnustaði, hver fengi greitt fyrir fræðsluna og að lokum hver kostnaðurinn væri við að viðhalda slíkri vottun.

Svar borgarinnar var að hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu væri starfandi sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks sem sæi alfarið um vottunina á sínum vinnutíma samhliða öðrum verkefnum í málaflokknum.

Sá sérfræðingur heitir Valgerður Jónsdóttir og er félags- og kynjafræðingur. Kostnaður við Regnbogavottunina félli þess vegna aðallega á mannréttindaskriftstofu í formi launakostnaðar. Það er þó ekki eini kostnaðurinn því þegar vinnustaður hefur hlotið umrædda vottun þarf að framleiða og prenta bæði fána og plakat. Hver og einn vinnustaður þarf að hengja bæði fánann og plakatið upp en sá kostnaður sem af því hlýst er einnig greiddur af mannréttindaskrifstofunni.

Tekið er fram að starfsstaðirnir sem sækja um beri ekki sérstakan kostnað af vottuninni en þó geti fallið til einhver kostnaður í formi launa og veitinga, en hver fundur er 4,5 klukkustundir og bjóða margir vinnustaðir starfsfólki upp á hressingu meðan á fundinum stendur ásamt því að greiða þeim laun á meðan.

„Þetta er þó allt innifalið í hefðbundnum rekstri vinnustaða og er kostnaður sem fellur til vegna Regnbogavottunar á engan hátt frábrugðinn kostnaði sem fellur til vegna annarra fræðsluerinda sem starfsfólk borgarinnar situr með reglubundnum hætti.”

Gefið var sterklega í skyn í svari mannréttindastjóra að vandkvæði fylgdu því ef starfsmaður kysi að þiggja ekki fræðslu vegna Regnbogavottunar og þar með beri að túlka að sú fræðsla sé ekki „í boði“ heldur skylda.

Þá segir einnig að fjölbreytt fræðsla til starfsfólks sé hluti af starfsemi allra vinnustaða borgarinnar.
„Fræðslan sem er meginuppistaðan í Regnbogavottunarferlinu bara eitt dæmi um fræðslu sem starfsfólk getur sótt á sínum starfsferli hjá borginni”.

Ekki var svarað hver heildarkostnaður við allar vottanirnar væri fram að þessu.

Blaðamaður vill þó vekja sérstaka athygli á að gefið var sterklega í skyn í svari mannréttindastjóra að vandkvæði fylgdu því ef starfsmaður kysi að þiggja ekki fræðslu vegna Regnbogavottunar og þar með beri að túlka að sú fræðsla sé ekki „í boði“ heldur skylda.

Ekki það sama og hinsegin vottun

Nútíminn vill taka sérstaklega fram að Regnbogavottun Reykjavíkur er ekki það sama og Hinsegin vottun Samatakanna 78 en einhverjir ku hafa ruglað þessu tvennu saman en fjallað hefur verið um skyldumætingu starfsmanna álversins og Straumsvík á slíka fræðslu.

Starfsmenn álversins skikkaðir til að mæta í hinsegin fræðslu: Eigendur vilja „hinsegin vottun“

 

 

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing