Auglýsing

Hvati til barneigna sagður ýta undir mismunun

Mynd sem sýnir dæmi um hvernig fjölskyldubótakerfið virkar eftir skilnað hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla undanfarinn sólarhring og vakið mikil viðbrögð. Netverji nokkur tók myndina saman í tilefni þess að til stendur að leggja fram frumvarp á Alþingi sem á að hvetja til barneigna á Íslandi með skattaafslætti. Það var þó ekki markmið hins göfuga frumvarps sem stakk í augu, heldur að ef foreldrar barnanna skilja færast sérstakir skattafslættir til lögheimilisforeldris, sem í langflestum tilfellum eru mæður.

Forsendur útreikninganna

Nútíminn fékk netverjann til að fara yfir helstu forsendur þeirra útreikninga sem liggja til grundvallar á myndinni.

  • Laun: Með nútíma jafnlaunavottunum er reiknað með að báðir foreldrar séu með sömu laun. Fjárhæð launanna miðast við þá fjárhæð sem stjórnvöld miða við að greidd séu tvöföld meðlög með þremur börnum.
  • Leiga: Til að gæta jafnræðis í útreikningum er reiknað með að báðir foreldrar séu á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu í íbúð með 4 svefnherbergjum. Markaðsverð á slíkri íbúð er um 400 þúsund krónur á mánuði. Húsnæðisbætur eru reiknaðar í reiknivél HMS.
  • Barnabætur: Barnabætur eru reiknaðar m.v. tekjur og engar eignir í reiknivél Skattsins, að börnin séu eldri en 7 ára og foreldrið sé einstætt.
  • Meðlög: Einfalt meðlag er 46.147 kr. á mánuði á hvert barn og tekjutengd vefsíðu stjórnvalda.
  • Mæðralaun: Á vef stjórnvalda er hægt að sjá fjárhæðir mæðra- og feðralauna.

 

 

Engin tvö dæmi eins

Netverjinn bendir á að þegar kemur að launum, húsnæðiskostnaði og framfærslukostnaði eru engin tvö dæmi nákvæmlega eins. Með ofangreindum forsendum geti í raun hver sem er reiknað dæmið til enda m.v. ólíkar forsendur. Dæmið sé sett upp til að sýna hvernig kerfið virkar, en þegar neðar er farið í tekjum versna kjör feðra enn frekar, enda séu sífellt fleiri feður á lægri launum sem ekki geta haft börnin hjá sér yfir höfuð, enda þurfi þeir að greiða meðlög og njóti ekki fjárhagslegs stuðnings frá hinu opinbera.

Færslunni var eytt af Pabbatips

Líflegar umræður sköpuðust í gær í nokkrum hópum á Facebook þar sem fjöldi einstæðra feðra lýstu kröppum kjörum sínum. Í dag var færslu með myndinni eytt á Pabbatips, sem er Facebook hópur ætlaður feðrum. Eftir ábendingar frá öðrum feðrum, sem komið var til stjórnenda Pabbatips, um að aðeins kæmu fram staðreyndir í færslunni ákváðu stjórnendur að birta færsluna aftur.

Hvati til barneigna

Að sögn netverjans var tilgangur þess að taka saman þetta dæmi ekki að gagnrýna það góða markmið að hvetja landsmenn til barneigna. Staðreyndin sé þó sú að skilnaðir séu algengir á Íslandi og fjölskyldubótakerfið eftir skilnað sé alls ekki til þess fallið að gera báðum foreldrum kleift að ala upp barn sitt með sómasamlegum hætti. Að auka fjárhagslegt bil á milli foreldra eftir skilnað enn frekar, sé skref í ranga átt. Frekar ætti að jafna bilið, enda þarf tvo til þegar barneignir eru annars vegar.

Ef þú þekkir sögu af afleiðingum fjölskyldubótakerfisins eftir skilnað getur þú sent þær sögur á ritstjorn@nutiminn.is. Við munum gæta nafnleyndar sé þess óskað.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing