Lilja Alfreðsdóttir verður ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Á morgun kemur í ljós hvaða ráðherraembætti hún tekur við. Sigurður Ingi Jóhannsson verður forsætisráðherra. Engin uppstokkun verður í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins.
Kosið verður í haust.
Lilja er með meistaragráðu í alþjóðahagfræði frá Columbia University. Hún fór þangað sem Fullbright-styrkþegi en lauk einnig BA-námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.
Sjá einnig: Augnablikið sem Ásmundur Einar fattar að Sigurður Ingi er forsætisráðherra, sjáðu myndbandið
Lilja hefur starfað sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu og í Seðlabanka Íslands þar sem hún var aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta.
Hún starfaði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) í Washington D.C. frá 2010 til 2012 sem fulltrúi Íslands á skrifstofu sjóðsins sem fer með málefni kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.
Í svipmynd Markaðarins frá því í september 2014 kom fram að Lilja sé gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi í fjármálaráðuneytinu, og þau eigi tvö börn, Eystein Alfreð og Signýju Steinþóru.
Þar kom einnig fram að Lilja hafi áhuga á skokki, stangveiði og fimleikum. „Svo finnst mér mjög gaman að lesa bækur. Ég var einmitt að klára bókina Flash Boys eftir Michael Lewis sem fjallar um verðbréfaviðskipti á Wall Street,“ sagði Lilja í Markaðnum.
Faðir Lilju hefur látið til sín taka í stjórnmálum. Hann heitir Alfreð Þorsteinsson og er m.a. fyrrverandi stjórnarformaður Orkuveitunnar.