Það var af nægu að taka hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 17:00 í gær til 05:00 í nótt en nokkuð var um umferðaróhöpp og líkamsárásir. Nútíminn birtir hér fyrir neðan dagbók lögreglunnar sem er skipt upp eftir lögreglustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Hver lögreglustöð sér um ákveðið svæði og nú geta íbúar séð hvað gerðist í þeirra hverfi.
Lögreglustöð 1 – Austurbær, Vesturbær, Miðborg og Seltjarnarnes
– Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að bifreið var ekið á umferðarmannvirki þar sem að ökumaður náði ekki að hemla niður sökum hálku og snjóþekju. Ökumaður var óslasaður.
-Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að bifreið var ekið á tvær mannlausar bifreiðar í miðborginni. Ökumaður reyndist vera ölvaður og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð.
-Aðili handtekinn grunaður um að hafa veist að öðrum með hnefahöggum í hverfi 105. Sá var vistaður í fangaklefa.
-Þá barst tilkynning um öskur og læti frá íbúð í fjölbýlishúsi. Lögregla fór á vettvang og eftir töluverðan tíma kom maður til dyra. Sá hafði verið að spila tölvuleik og sagðist hafa gleymt sér í hita leiksins.
-Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að bifreið var ekið á umferðarljósavita. Ökumaður reyndist vera ölvaður og undir áhrifum fíkniefna. Sá var handtekinn og færður á lögreglustöð. Grunur leikur á að akstursskilyrði og víma ökumanns hafi átt álíka stóran þátt í að svo fór sem fór.
-Tilkynnt um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur þar sem að árásarþoli var sleginn í andlitið með krepptum hnefa. Gerandi var farinn af vettvangi en lögregla telur sig vita hver þar var að verki.
-Ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Fluttur á lögreglustöð í sýnatöku.
-Aðili handtekinn í verslun eftir að hafa kastað til vörum og skemmt hillusamstæðu í versluninni. Sá handtekni er einnig sakaður um líkamsárás gagnvart aðila sem að vara á vettvangi. Gerandinn var vistaður í fangaklefa.
Lögreglustöð 2 – Hafnarfjörður og Garðabær
– Tilkynnt um umferðaróhapps sem að má rekja til slæmrar færðar. Ökumaður missti stjórn á bifreið sinni sem að rakst utan í bifreið sem að var með sömu akstursstefnu. Minniháttar tjón á bifreiðum og enginn slasaður.
Tilkynnt um líkamsáras í hverfi 221 þar sem að veist var að aðila með einhverskonar bareflum. Ekki meira vitað að svo stöddu.
-Ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Handtekinn og færður á lögreglustöð í sýnatöku.
Lögreglustöð 3 – Kópavogur og Breiðholt
– Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að bifreið var ekið á ljósastaur og á vegrið. Ökumaður slasaðist og var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku. Bifreiðin var óökufær eftir óhappið.
-Lögregla handtók aðila í heimahúsi eftir að hann hafi veist að öðrum og haft í hótunum. Sá handtekni var töluvert ölvaður og var hann vistaður í fangaklefa.
-Aðili handtekinn grunaður um líkamsárás, hann reyndist vera undir áhrifum áfengis og var hann vistaður í fangaklefa.
-Tilkynnt um eld í bifreið á bifreiðarstæði í hverfi 111. Málið er í rannsókn.
-Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að bifreið hafnaði utan vegar. Töluvert tjón var á bifreiðinni. Ekki er vitað með ástand ökumanns og farþega þegar þetta er ritað.
Lögreglustöð 4 – Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær
– Tilkynnt um umferðaróhapp þar sem að þrjár bifreiðar rákust saman. Engin slys á fólki.
-Tilkynnt um farþega í bifreið sem að hélt á ungabarni í fanginu sem að var ekki í viðeigandi öryggisbúnaði. Lögregla stöðvaði bifreiðina og reyndist tilkynningin á rökum reist. Ökumaður á von á kæru og þá verður tilkynning send til barnaverndaryfirvalda.
-Ökumaður stöðvaður við akstur grunaður um að aka undir áhrifum áfengis. Þá var hann einnig með útrunnin ökuréttindi.
Ásamt ofangreindum verkefnum sinnti lögreglan verkefnum þar sem að tilkynnt var um fólk í annarlegu ástandi sökum ölvunar, samkvæmishávaða í heimahúsum og ýmsar aðrar aðstoðarbeiðnir.