Umræður um þriðja orkupakkann hafa verið áberandi á Alþingi undanfarna daga. Í morgun þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sleit þingfundi, hafði málið verið rætt í 70 klukkustundir í heildina, þar af hafa þingmenn Miðflokksins rætt málið sín á milli í 60 klukkustundir.
Steingrímur talaði til Miðflokksmanna þegar hann sleit þingfundi í morgun klukkan níu eftir 17 klukkustunda umræðu. Hann hvatti þá til þess að hugleiða framhaldið vel og spurði hvort þeir séu ekki til í að takmarka eða draga úr ræðuhöldum svo hægt væri að ljúka umræðunni.
Hann benti á að ekkert annað hafi komist að á dagskrá Alþingis í rúma viku og að það sé skylda hans sem forseta Alþingis að gæta réttinda þingmanna.
„Frelsið er mikilvægt eins og réttur þingmanna en frelsi eins má ekki vera á kostnað frelsis annarra,“ sagði Steingrímur.