Auglýsing

Hvítur, hvítur dagur meðal mest umtöluðu mynda í Cannes

Nýjasta kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Hvítur, hvítur dagur, hefur hlotið mikið lof og fengið frábæra dóma hjá stærstu erlendu kvikmyndamiðlunum í framhaldi af frumsýningu sinni á Cannes kvikmyndahátíðinni í Frakklandi sem nú er haldin í 72.sinn.

Framleiðandi myndarinnar, Anton Máni Svansson, segir frumsýninguna hafa gengið vonum framar. „Það var spenna í loftinu og mikið hlegið, en einnig féllu tár víðsvegar um salinn og svo var standandi lófaklapp yfir allan kreditlistann. Við höfum fengið gífurlega mikla athygli í framhaldinu og því verið fleygt fram t.a.m. í kvikmyndavefritum EKKO og MUBI að myndin sé ein sú sterkasta á hátíðinni til þessa.“  Blaðamaður Screen International, Wendy Mitchell, hefur einnig sagt á samfélagsmiðlum að myndin sé meðal þeirra mest umtöluðu á hátíðinni.

Gagnrýnandi Hollywood Reporter segir að myndin sé „kröftug og frumlega úthugsuð“ og fer einnig fögrum orðum um aðalleikara myndarinnar, Ingvar Sigurðsson, en gagnrýnendur hafa verið að lofa hann hástert fyrir hlutverk sitt í myndinni. „Ingimundur er heillandi og áhugaverður karakter, meistaralega dreginn upp af Ingvari Sigurðssyni“ segir í Screen International, og ennfremur að myndin sjálf sé „sjónrænt grípandi og áhrifamikil“. Gagnrýnandi MUBI segir myndina vera „sú mest taugatrekkjandi og tilfinningaríka upplifunin til þessa“ og að hann sjái fyrir sér að frammistaða Ingvars eigi eftir að sitja í honum lengi vel eftir að hátíðin nær enda.

Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í starfsleyfi frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju og leiðir hann til róttækra gjörða sem óhjákvæmilega bitnar einnig á þeim sem standa honum næst.

Með önnur helstu hlutverk myndarinnar fara þau Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Björn Ingi Hilmarsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Arnmundur Ernst Bachman, Þór Tulinius og Sverrir Þór Sverrisson. Myndin er framleidd af Join Motion Pictures og Sena sér um dreifingu hennar á Íslandi.

Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd á eftir hinni dönsk/íslensku Vetrarbræður, sem kom út árið 2017 og fór sigurför um heiminn í kjölfar heimsfrumsýningu í aðalkeppni Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss. Hvítur, hvítur dagur verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi 6. september.

“A tale of spellbinding and perturbing beauty”
“Cannes hasn’t even reached its midpoint yet, but (…) Pálmason’s second feature stands as the most disquieting and touching experience so far—and  (…) something tells me I shall return to Sigurdsson’s performance a long after my time here will come to a close.”
MUBI

Visually arresting and emotionally rewarding”
“Ingimundur is a fascinating character, splendidly portrayed by Ingvar Sigurðsson”
Screen International

“Powerful and freshly thought-out”
“Sigurdsson commandingly holds center screen throughout”
The Hollywood Reporter

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing