Skotárás sem gerð var í fríríkinu Kristjaníu í Kaupmannahöfn í Danmörku á miðvikudagskvöld virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn að mati íbúa þess. Hófust þeir handa í morgun við að fjarlægja bása þar sem fíkniefni hefur verið seld í mörg ár, þá aðallega kannabis. Íbúarnir komu sér saman um þetta á íbúafundi sem haldinn var í gærkvöldi.
Mesa Hodzic, 25 ára karlmaður, hjólaði heim á leið á miðvikudagskvöld með peningakassa meðferðis. Hann hafði staðið vaktina á Pusher-stræti þar sem sölubásana er að finna. Hann mætti lögreglu sem hafði ætlað að handtaka hann fyrir sölu á fíkniefnum.
Hodzic greip þá til byssu sem hann hafði meðferðis og skaut í átt að lögreglumönnunum. Hann hæfði einn þeirra í höfuðið og liggur hann þungt haldinn á sjúkrahúsi. Annar lögreglumaður og vegfarandi slösuðust einnig. Ungi maðurinn lést í nótt af völdum sára sem hann hlaut þegar lögregla skaut hann.
Hodzic hafði verið undir smásjá lögreglu og líkt og kemur fram hjá BT átti hann yfir höfði sér ákæru fyrir tilraun til manndráps, ólöglegan vopnaburð og sölu fíkniefna. Hann bjó í Danmörku frá fjögurra ára aldri en var fæddur í Bosníu. Berlingske fjallaði um blaðamannafund lögreglunnar í Kaupmannahöfn í gær en þar kom fram að ungi maðurinn hefði haft tengsl við íslamska vígamenn, hópinn Millatu Ibrahim og hefði sagt að hann styddi málstað hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.
Hér að neðan má sjá íbúa fjarlægja básana af Pusher-stræti. Sá sem deilir myndunum segir að lögleiðing kannabis sé langtímalausnin.
Christianitter rydder #Pusherstreet Sejt! God stemning! Den langsigtede løsning er dog legalisering #dkpol pic.twitter.com/cDaRH2kM4e
— Sofus Midtgaard (@Sofus) September 2, 2016
Peter, einn af íbúum Kristjaníu, segir í samtali við Berlinske að í byrjun hafi salan á kannabisinu farið fram í friði og spekt en síðan hafi hún stigmagnast. „Nú erum við komin á þann stað að ungur maður beitir vopni,“ segir Peter.
Það gengur ekki og þess vegna tökum við básana.
Niðurstaða íbúafundarins í gærkvöldi er afgerandi, íbúarnir vilja ekki lengur hýsa stóran hluta af kannabismarkaði Danmerkur. „Kaupið kannabisið ykkar annars staðar,“ segir í skilaboðum frá íbúunum.
Á blaðamannafundi sem lögreglan í Kaupmannahöfn hélt í morgun kom meðal annars fram að lögregla telji að fíkniefnasalar muni halda sölunni áfram á götum úti í Kaupmannahöfn, að lokun Pusher-stræti muni ekki koma í veg fyrir sölu á kannabis í borginni.
Lögregla hefur gert tilraun til að loka götunni en án árangurs. Það var síðast gert í júlí þegar sölubásarnir voru fjarlægðir. Þeir voru þó komnir upp aftur innan nokkurra klukkustunda.
Kristjanía var stofnuð af hústökufólki árið 1971.