„Okkur þykir mjög leitt að þetta hafi komið upp,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair vegna „hryllingsflugsins“ frá Kanaríeyjum á þriðjudaginn. Þetta kemur frá í tilkynningu frá flugfélaginu.
Nútíminn greindi frá flugferðinni á miðvikudaginn en þar kom meðal annars fram að ferðin hafi tekið tæpa sjö klukkutíma, ekkert vatn hafi verið á krönum, ekkert afþreyingarkerfi um borð og að boðið hafi verið upp á gulrætur fyrir börnin á meðan á fluginu stóð. Einn farþegi flugvélarinnar sem var að ferðast með konunni sinni lýsti þessu svona:
Versta martröð í flugi sem hægt var að upplifa
„Ég og konan mín vorum þarna að fljúga heim eftir yndislegt frí en við tók einhver mesta martröð sem ég hef upplifað. Þeir sögðu að það væru vandræði með að koma vatni á vélina og allt gott og blessað með það en þarna var flugvél full af börnum sem eflaust voru orðin mjög óþreyjufull enda var ekkert hægt að horfa á teiknimyndir eða gera nokkurn skapaðan hlut á meðan beðið var þannig að það var stutt í grátur – sem er skiljanlegt enda erfitt að halda börnum rólegum í tvo klukkutíma í einhverju röri ef þú ert ekki með einhverja afþreyingu. Þarna hófst martröðin sem við sáum engan endi á fyrr en við lentum á Íslandi,“ sagði maðurinn sem vildi meina að ákvarðanataka þeirra sem að fluginu komu hafi snúist um að spara pening.
Upplýsingafulltrúi Icelandair segir að ástæðurnar fyrir þessu hafi fyrst og fremst verið þrjár.
„Veitingasala var óvenjumikil á leið til Kanarí og því var lítið eftir af stökum vörum á leiðinni tilbaka, flugvélin sem var notuð í flugið var ekki með skjáum í sætum og þjónustuaðili á flugvellinum ytra náði ekki að fylla vatntanka að fullu fyrir brottför,“ segir Guðni í svari til Nútímans. Þá segir hann að umræddur skortur á vatni hafi komið niður á þeim veitingum sem hægt var að bjóða um borð í vélunum.
Eina flugvél flotans án afþreyingarkerfis
„Skortur á vatni hafði þau áhrif að ekki var hægt að afgreiða matvörur sem krefjast þess að hafa heitt vatn, svo sem kaffi og te,“ segir Guðni og bætir við að umrædd vél sé sú eina í þeirra flota sem er án hefðbundins afþreyingarkerfis.
„Hins vegar bjóðum við farþegum að tengja sín eigin snjalltæki við innranet flugvélarinnar og streyma afþreyingarefni. Hins vegar bjóðum við farþegum að tengja sín eigin snjalltæki við innranet flugvélarinnar og streyma afþreyingarefni. Farþegum var sendur tölvupóstur sem útskýrði þetta fyrir flugið en við erum að skoða hvort við getum bætt um betur í því upplýsingaflæði..
Reynt að meta þörfina fyrir hvert flug
Þá segir Guðni ennfremur að reynt sé eftir fremsta megni að meta þörfina fyrir hvert flug en um leið er lagt áhersla á að bera ekki meiri vörur en þeir þurfa til þess að stuðla að minni eldsneytisnotkun og þar með minni kolefnislosun.
„Það getur komið fyrir að sala er óvenjumikil á einhverjum flugleggjum og að það hafi áhrif á seinni fluglegg. Það gerist hins vegar sjaldan.“