Stjórn Icelandair Group hefur gert kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Kaupin eru meðal annars gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar. Þetta kemur fram Í tilkynningu.
Félögin verða áfram rekin undir sömu vörumerkjum en sameiginleg markaðshlutdeild þeirra á markaðnum yfir Atlantshafið er um 3,8%.
Í tilkynningu segir jafnframt að sem gagngjald fyrir hlutafé WOW Air munu hluthafar WOW air, að uppfylltum skilyrðum, eignast alls ríflega 272 milljón hluti eða sem samsvarar um 5,4% hlutafjár Icelandair Group eftir viðskiptin.
„Með yfirtökunni skapast tækifæri til sóknar á nýja markaði og auk þess er gert ráð fyrir að einingakostnaður Icelandair Group muni lækka. Félagið verður þannig enn betur í stakk búið til þess að veita erlendum flugfélögum öfluga samkeppni á hinum alþjóðlega flugmarkaði,“ segir í tilkynningu.