Breski leikarinn Idris Elba hefur endurvakið þann orðróm að hann verði næsti leikari til þess að leika James Bond með einu litlu tísti í dag.
Lengi hefur verið sá orðrómur í gangi að Elba verði fyrsti svarti leikarinn til að túlka Bond. Hann ýtti undir orðróminn með tísti sínu í dag þar sem hann birti mjög breytta mynd af sjálfum sér og skrifaði við hana: „Ég heiti Elba, Idris Elba,” setning sem James Bond er hvað þekktastur fyrir.
my name’s Elba, Idris Elba. pic.twitter.com/kEyyaVg8JX
— Idris Elba (@idriselba) August 12, 2018
Barbara Broccoli, framleiðandi myndanna, ýtti einnig undir orðróminn á dögunum þegar hún sagði að það væri kominn tími á leikara sem væri ekki hvítur. Þá sagði leikstjórinn Antoine Fuqua að Elba gæti leikið Bond ef að hann kæmi sér í gott form.
Elba ruglaði aðdáendur þó enn frekar í ríminu með næsta tísti sínu þar sem hann segir fylgjendum sínum að trúa ekki öllu.
Don’t believe the HYPE…
— Idris Elba (@idriselba) August 12, 2018
Daniel Craig hefur tilkynnt að hann ætli að hætta að leika í myndunum á næsta ári eftir sína fimmtu mynd sem Bond. Aðrir leikarar sem hafa verið orðaðir sem næsti Bond eru meðal annars Tom Hardy og Tom Hiddleston.